Versta veðrið á suðvesturhorninu

Spáð er stormi víðs vegar um landið í dag.
Spáð er stormi víðs vegar um landið í dag. mbl.is/RAX

„Versta veðrið verður sennilega frá Reykjanesi norður að Breiðafirði, því þar verður úrkoma með vindinum,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, en í dag er spáð stormi víðs vegar um landið. 

Segir hann vindstyrkinn vera eins og áður hefur verið spáð en þegar vindurinn færist yfir á Norður- og Norðausturlandið síðdegis fylgi úrkoman ekki með, en spáð er éljagangi á suðvesturhorninu. Á Vestfjörðum er svo spáð snjókomu síðar í dag. 

Önnur lægð kemur svo inn yfir landið á morgun en henni fylgja meiri hlýindi. „Hún er ekki nærri því eins hvöss og þessi og henni fylgir rigning eða slydda. Síðan á að kólna aftur á þriðjudaginn og á miðvikudaginn er gert ráð fyrir norðlægari átt og þá léttur til sunnanlands og kólnar á Norðurlandi með úrkomu,“ segir Óli. 

Hann segir að samgöngur gætu raskast á landinu í dag en það sé þá helst vegna skyggnis en ekki vegna ófærðar á vegum. 

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert