Íbúar Ölfuss vilja ekki viðræður

Íbúar gátu leitað aðstoðar hjá Þjóðskrá og á bókasafninu í …
Íbúar gátu leitað aðstoðar hjá Þjóðskrá og á bókasafninu í Ölfusi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

308 íbúar sveitarfélagsins Ölfuss eru andvígir viðræðum um sameiningu við önnur sveitarfélög en 304 íbúar eru hlynntir því. Ef ræða ætti við önnur sveitarfélög, þá vildu 286 íbúar ræða við Hveragerði, en 214 íbúar við Grindavík. 

309 íbúar telja að fyrsta helgin eftir verslunarmannahelgi henti best fyrir bæjarhátíðina Hafnardaga en 149 íbúar töldu sjómannadagshelgina heppilegasta.1432 voru á kjörskrá, 16 ára og eldri. 617 greiddu atkvæði eða rúm 43%.

Síðustu daga hafa staðið yfir rafrænar íbúakosningar í Ölfusi í samstarfi við Þjóðskrá. Bragi Leifur Hauksson, verkefnastjóri kosningarinnar, segir kosningarnar hafa gengið mjög vel og vonist Þjóðskrá til að koma fleiri slíkum kosningum á næstunni.

Íbúar létu í ljós afstöðu sína til viðræðna um sameiningu við önnur sveitarfélög auk þess að tjá hug sinn um tímasetningu Hafnardaga.

Bæjarstjórn Ölfuss óskaði eftir samstarfi við Þjóðskrá Íslands um að hafa kosningarnar eingöngu rafrænar og fékk leyfi innanríkisráðherra til þess. Nýtt var kosningakerfi frá spænska fyrirtækinu Scytl og innskráningarþjónusta Þjóðskrár þar sem hægt er að nota Íslykil eða rafræn skilríki. 

Fólk geti kosið þegar því hentar

„Á tímabili var smá stífla í sendingar á Íslyklum í heimabanka en það var minniháttar. Kosningar var opin í tíu sólarhringa þannig að fólk hafði gott svigrúm til að kjósa. Hugsunin er sú að fólk geti kosið þegar því hentar, að það þurfi ekki að vera í bænum þegar kosið er heldur geti það kosið ef það kemst í tölvu þar sem það er,“ segir Bragi Leifur í samtali við mbl.is.

Íbúar gátu leitað aðstoðar hjá Þjóðskrá og á bókasafninu í Ölfusi og segir Bragi Leifur að mikil áhersla hafi verið lögð á að tæknin hindraði fólk ekki í að kjósa.

„Ég upplifi það þannig að fólk hafi fengið alla þá aðstoð sem það þurfti. Nú viljum við gjarnan fá annað sveitarfélag í samstarf og erum við að leita að öflugu sveitarfélagi til að vinna með okkur að næstu tilraunakosningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert