Hannes Hlífar á meðal þátttakenda

Hrafn Loftsson stýrir hvítu mönnunum gegn Fide-meistaranum Davíð Kjartanssyni.
Hrafn Loftsson stýrir hvítu mönnunum gegn Fide-meistaranum Davíð Kjartanssyni. Ljósmynd/Taflfélag Reykjavíkur

Vormót Taflfélags Reykjavíkur í samstarfi við WOW-air hófst síðastliðið mánudagskvöld en á meðal þátttakenda er stórmeistarinn og margfaldur Íslandsmeistari, Hannes Hlífar Stefánsson. Ásamt Hannesi taka þátt í A-flokki einn alþjóðlegur meistari og fimm Fide-meistarar en alls telur flokkurinn fjórtán keppendur. 

B-flokkur mótsins er skipaður mörgum af efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar, en yngstur þeirra er Vignir Vatnar Stefánsson sem er aðeins tólf ára gamall.

Helstu úrslit fyrstu umferðar voru þau að Hannes Hlífar sigraði Þorvarð F. Ólafsson og hinn ungi og efnilegi Oliver Aron Jóhannesson gerði jafntefli við alþjóðlega meistarann Braga Þorfinnsson. Í B-flokki vann hinn ungi Vignir Vatnar góðan sigur á Stefáni Bergssyni og Bárður Örn Birkisson hafði betur gegn landsliðskonunni Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur.

Í annarri umferð, sem fer fram næstkomandi mánudagskvöld, mætast meðal annars Björgvin Víglundsson og Hannes Hlífar, Bragi og Fide-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson sem og Vignir Vatnar og Sverrir Örn Björnsson. Teflt er í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12 og hefst taflmennskan kl. 19.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert