Æði rann á mann á þjónustumiðstöð

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögregla var kölluð til á þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar í Vesturbæ um klukkan hálftvö í dag. Æði hafði runnið á mann og henti hann stólum til og braut með því rúðu þar innandyra.

Er lögreglu bar að garði var hann farinn úr þjónustumiðstöðinni en hann var handtekinn í nágrenni við hana. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að skýrsla verði tekin af honum í fyllingu tímans.

Lögregla á stöð 3 í Kópavogi og Breiðholti þurfti að sinna erindum í húsi einu fyrir hádegi í dag. Þegar þangað var komið fannst mikil hasslykt og kom í ljós að ræktun var í einum af bílskúrunum við húsið. Í tilkynningu frá lögreglu segir að málið sé upplýst.

Tilkynnt var um stuld á bíl í eigu fyrirtækis um klukkan þrjú í dag. Í bílnum var staðsetningarbúnaður og því var hægt að finna finna hann og stöðva akstur þess sem tók bílinn ófrjálsri hendi.

Tvær konur voru handteknar og færðar á lögreglustöð. Báðar væru þær í mikilli vímu vegna áfengis og annarra vímugjafa. Rætt verður við konurnar þegar af þeim rennur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert