Hlaupa yfir Sprengisand í sumar

Félagarnir Gísli Einar Árnason, Kristján Logi Kárason og Óskar Jakobsson.
Félagarnir Gísli Einar Árnason, Kristján Logi Kárason og Óskar Jakobsson. Úr einkasafni.

Félagarnir Óskar Jakobsson og Gísli Einar Árnason ætla ekki að sitja með hendur í skauti í sumar. Dagana 3 –11. júlí ætla þeir að hlaupa frá Reykjavík til Akureyrar yfir Sprengisand, eða um 45 – 50 kílómetra á dag í níu daga. Þetta gera þeir til að vekja athygli á stöðu langveikra barna og safna í þrjá sjóði, meðal annars í sjóð níu ára drengs.

Verkefnið gengur undir nafninu Hlaupið heim en Óskar sleit barnskónum á Ísafirði og hljóp frá Reykjavíkur til Ísafjarðar árið 2013 til að vekja athygli á sama málefni en einnig styðja við vin sinn, Finnboga Örn Rúnarsson. Nú ætla félagarnir að gleðja Kristján Loga Kárason, ungan dreng á Akureyri sem er mikið fatlaður.

Börnin geti notið þess sem lífið hefur upp á bjóða

Eins og vill verða hjá fjölskyldum langveikra barna hefur atvinnuþátttaka foreldra Kristjáns Loga takmarkast mikið og margvíslegur kostnaður fallið til. Þá segja félagarnir að mikilvægt sé að tryggja að börnin geti notið þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Foreldrar Kristjáns Loga hafa mikinn áhuga á útivist og vilja meðal annars kaupa handa honum hjól undir stólinn hans svo hann geti farið út að hjóla með þeim og stól svo hann geti komist á skíði. Því verður meðal annars safnað í hjálpartækjasjóð drengsins.

Einnig verður safnað í sjóð barnadeildar Sjúkrahússins á Akureyri og sérdeildar Giljaskóla þar sem Kristján Logi stundar nám þegar hann hefur krafta og heilsu.

Hlaupa í tveimur til þremur lotum

„Þetta er bara spurning um að hlaupa nógu mikið og fá nógu marga kílómetra í fæturna. Bara róleg hlaup til að venja fæturna við að hamra á þeim daginn út og daginn inn,“ segir Gísli Einar í samtali við mbl.is um undirbúning hlaupsins.

Gísli Einar gerir ráð fyrir að þeir félagarnir hlaupi í tveimur til þremur lotum yfir daginn. Munu þeir gista í skálum og sumarbústöðum á leiðinni og en þeir hafa notið velvildar hjá vinum og kunningjum sem munu lána þeim húsnæðið.

Um helmingur leiðarinnar er á malbiki og helmingur á möl. „Þetta snýst aðallega um að setja hausinn í þetta og gera þetta þannig. Að ætla sér þetta,“ segir Gísli Einar.

Félagarnir skora á fyrirtæki og einstaklinga að leggja þeim og styrktarsjóðnum Hlaupið heim lið með frjálsum framlögum. Áheitin af Hlaupinu Heim munu renna í hjálpartækjasjóð Kristjáns Loga, til sérdeildar Giljaskóla og Barnadeildar Sjúkrahússins á Akureyri.

Banki: 0565-14-404427
Kt:141005-3750

Facebook-síða hlaupsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert