„Besta mæting á Vopnaskak í tíu ár“

Sigurvegarar í ratleik Vopnaskaks 2015.
Sigurvegarar í ratleik Vopnaskaks 2015. Ljósmynd/Vopnafjörður

Vopnaskak, bæjarhátíð Vopnafjarðar fer fram um þessar mundir en hún er haldin á hverju ári. Hátíðin hófst á miðvikudaginn og lýkur á morgun. Gleðin hefur verið alls ráðandi síðustu daga í bænum. „Stemningin er vægt til orða tekið frábær. Þetta er bara þvílík helgi,“ segir Tómas Guðjónsson, framkvæmdastjóri Vopnaskaks, í samtali við mbl.is.

Í ár eru endurvaktir viðburðir sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Þar ber helst að nefna hagyrðingakvöld, sem fór fram á föstudagskvöldið, og Hofsball, eða sveitaball, sem fer fram í kvöld.

„Veðrið er búið að vera geggjað í dag, sól og blíða. Það hefur verið uppselt á stórviðburðina hjá okkur og í kvöld verður sveitaball.“ Hljómsveitin Buff leikur fyrir dansi á ballinu í kvöld. 

Vopnafjörður hefur iðað af lífi síðustu daga. „Miðbærinn hefur verið troðfullur og þetta er besta mæting á Vopnaskak í svona tíu ár. Mér þykir sérstaklega gaman að sjá alla þessa brottfluttu Vopnfirðinga,“ segir Tómas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert