Ekki kaldara á Akureyri síðan 1993

Akureyri.
Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Meðalhiti í Reykjavík í júlímánuði var 11,3 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,4 stig. Svo kalt hefur ekki verið í júlí á Akureyri síðan 1993 en litlu hlýrra var í júlí 1998.

Þetta kemur fram í yfirliti á vef Veðurstofunnar um tíðarfarið í júlí.

Þar segir að júlímánuður hafi verið mjög kaldur um mestallt land. Á litlu svæði um landið suðvestanvert var hann þó lítillega hlýrri en meðaltal áranna 1961 til 1990 en meir en tvö stig undir því víða inn til landsins um landið norðaustan- og austanvert. Hiti var undir meðallagi júlímánaða síðustu tíu ára um land allt.

Á Egilsstöðum hefur meðalhiti aðeins tvisvar orðið lægri í júlí en nú, frá því samfelldar mælingar hófust þar 1955. Það var 1993 og 1970.

Að tiltölu var hlýjast á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á sunnanverðum Vestfjörðum, sérstaklega kalt var í efstu byggðum norðaustan- og austanlands, að tiltölu kaldast í Möðrudal þar sem hiti var -4,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Reykjavíkurflugvelli, 11,4 stig, en lægstur á Gagnheiði, 1,6 stig. Þetta er lægsti meðalhiti sem vitað er um í júlí hér á landi. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, 5,9 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir meðallagi síðustu tíu ára alla daga mánaðarins. Hann var undir 7,5 stigum þ. 10., 19. og 20. og voru það köldustu dagar mánaðarins. Hiti var ofan 10 stiga aðeins tvo daga, þá 4. og 5.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,0 stig í Stafholtsey þann 5. Daginn áður mældist hæsti hiti á sjálfvirkri stöð, Fíflholtum á Mýrum, 20,8 stig. Lægsti hiti á landinu mældist -2,5 stig í Gæsafjöllum þann 29. Jafnaði sá hiti landsdægurlágmark. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 29., -1,5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert