Áætlar tjónið um 100 milljónir

Svona var umhorfs á Siglufirði um helgina.
Svona var umhorfs á Siglufirði um helgina. Ljósmynd/Þórir Kristinn Þórisson

Gróflega áætlað mat á heildarkostnað við náttúruhamfarirnar á Siglufirði á föstudaginn er í kringum 100 milljónir, að sögn Birgis Ingimarssonar bæjarverkstjóra á Siglufirði, en hann segir að stefnt sé að því að fá sérfræðinga í tjónamati til þess að leggja nákvæmara mat á tjónið.

Hann segir að það séu um tuttugu hús sem hafi orðið fyrir einhverju tjóni. 

Birgir segir ennfremur allt útlit fyrir að bærinn verði kominn í þokkalegt horf við lok dags á morgun. Tveir bílar frá Hreinsitækni séu að störfum við að koma fráveitukerfinu í samt lag og að á morgun muni bæjarstarfsmenn hreinsa möl og grjót af lóðum í bænum. Það muni þó taka upp undir mánuð að laga göturnar og steypa ný ræsi.

Forsætisráðherra mætti til Siglufjarðar í dag þar sem hann skoðaði ástandið í bænum og afleiðingarnar af rigningunum miklu á föstudaginn. Birgir segir að það hafi verið mikilvægt fyrir fólkið að hitta forsætisráðherrann, því tjón sem þetta sé að hluta til líka andlegt. Að íbúar hafi verið í hálfgerðu losti. Það skiptist þó á skin og skúrir í orðsins fyllstu merkingu því að í dag sé veður mjög gott og sól heiði. 

Rigning streymdi inn í um tuttugu hús að sögn Birgis.
Rigning streymdi inn í um tuttugu hús að sögn Birgis. Ljósmynd/Þórir Kristinn Þórisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert