Tólf tíma knattspyrna fyrir dætur þjálfarans

„Við höfðum verið að hugsa hvað við gætum gert til að safna pening fyrir fjölskylduna hans. Svo kom þessi hugmynd frá þjálfurunum. Okkur leist vel á að gera eitthvað sem okkur þótti skemmtilegt að gera með Steina,“ segir Birna Kristín Eiríksdóttir um söfnun sem 3. flokkur Fylkis í knattspyrnu stendur fyrir vegna andláts þjálfara þeirra, Þorsteins Elíasar Þorsteinssonar.

Þorsteinn lést þann 8. júní síðastliðinn eftir að hafa veikst alvarlega á æfingu flokksins daginn áður. Var hann 37 ára að aldri og lét eftir sig tvær dætur, fimm og níu ára. Munu Birna Kristín og liðsfélagar hennar í þriðja flokki spila fót­bolta í tólf tíma samfleytt í dag til að safna fé fyrir þær.

„Hann var alveg frábær“

Þorsteinn þjálfaði bæði 3. flokk karla og kvenna en hafði ekki verið lengi með þennan stúlknahóp. „Hann var búinn að vera einn vetur með okkur stelpurnar,“ segir Birna Kristín, en ljóst er að Þorsteinn var samt sem áður fljótur að mynda góð tengsl við stúlkurnar. „Hann var alveg frábær.“

Bírna Kristín býst við að um fimmtíu til sjötíu manns muni taka þátt í söfnuninni í dag. Hófust leikar utandyra klukkan tólf og standa til tólf á miðnætti, en klukkan 18 munu krakkarnir fá aðstöðu innandyra í Fylkishöll.

Að sögn Birnu Kristínar gæti þessi tólf tíma maraþonleikur reynst iðkendum erfiður. „Við hvílum aðeins inn á milli og skiptumst á. En þetta gæti orðið erfitt.“

Reikn­ing­ur hef­ur verið stofnaður til að safna áheit­um. Fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Fylki að stofnaðir verði reikn­ing­ar á nöfn­um dætranna að söfn­un lok­inni.  Fyr­ir þá sem vilja styrkja þær er reikn­ings­núm­erið 0535-26-500305 og kennitalan 571083-0199.

Birna Kristín segir að stefnan sé sett á að safna hálfri milljón króna. „Hvort við náum einhverju meira, það verður bara að koma í ljós.“

Sjá frétt mbl.is: Safna fé fyrir dætur Þorsteins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert