Handtekinn fyrir heimilisofbeldi

Þrír gista fangageymslur lögreglunnar á Akureyri, þar á meðal einn fyrir heimilisofbeldi en hann var handtekinn í gær á heimili sínu. Ákvörðun verður tekin um framhaldið í dag, það er hvort óskað verði eftir nálgunarbanni og brottvísun mannsins af heimilinu, að sögn varðstjóra í lögreglunni.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur undirritað samstarfsyfirlýsinu við sveitarfélögin í umdæminu um átak gegn heimilisofbeldi. 

Að sögn varðstjóra voru börn á heimilinu þegar lögreglan kom og fjarlægði manninn og var aðgerðin gerð í samstarfi við félagsmálayfirvöld í bæjarfélaginu. Ekki er um fyrsta brot mannsins gegn fjölskyldu sinni að ræða. 

Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri undirritaði samkomulag við Akureyrarbæ um samstarf á þessum vettvangi í febrúar. 

Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og vernda börn sem búa við heimilisofbeldi.

Í heimilisofbeldismálum er mikilvægt að grípa inn í strax í upphafi máls þegar lögregla er kölluð til, því þar gefst einstakt tækifæri til að hafa áhrif á framhald málsins. Þar opnast „glugginn“ til að aðstoða þolendur og gerendur svo og að taka málið föstum tökum og koma í veg fyrir ítrekuð brot.

Rannsóknir sýna að börn sem verða vitni að heimilisofbeldi upplifa sálrænt áfall og sýna sömu einkenni kvíða og þunglyndis og börn sem sjálf hafa orðið fyrir ofbeldi. Lífsreynsla sem þessi fylgir börnum ævina á enda. Hætta er á að án utankomandi hjálpar geti hún valdið langvinnum erfiðleikum fyrir einstaklinginn.

Það að lögreglan og félagsmálayfirvöld í þessum sveitarfélögum taki höndum saman gefur skýr skilaboð út í samfélagið „um að ofbeldi á heimilum sé ekki liðið“ og gerir okkur sterkari í að takast á við þetta verkefni þannig að það skili meiri árangri, segir á vef lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Auk ofbeldismannsins var einn handtekinn í gær fyrir þjófnað úr stofnun en ekki er upplýst frekar um málið að svo stöddu. Sá þriðji var tekinn fyrir fíkniefnaakstur á Akureyri í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert