Gætu komið til landsins 21. desember

Sýrlenskt flóttafólk í Líbanon.
Sýrlenskt flóttafólk í Líbanon. AFP

Haft hefur verið samband við þá 55 flóttamenn sem ákveðið hefur verið að bjóða til landsins frá flóttamannabúðum í Líbanon og gangi allt upp gætu þau verið komin til landsins um 21. desember. Haldinn verður kynningarfundur fyrir fólkið, í Líbanon, um aðstæður hér um miðjan mánuðinn.

Þetta sagði Stefán Þór Björnsson, formaður Flóttamannanefndar, í samtali við mbl.is.

Fyrri frétt mbl.is: Samið um móttöku 55 flóttamanna

„Við erum að einhverju leyti bundin því hvernig afgreiðslan gengur úti,“ sagði Stefán, en unnið er að móttöku fólksins með IOM, Alþjóðastofnun fyrir farandfólk, sem sér um undirbúninginn ytra. „Þeir munu vera með kynningu fyrir það fólk sem við höfum boðið til landsins milli 14. og 17. desember, tveggja og hálfs dags námskeið. Þar verður sérfræðingur IOM sem þekkir vel til bæði norrænna og arabískra samfélaga sem heldur fyrirlestur um Ísland og þann menningarmun sem er þar á milli.“

Einnig hefur Fulbright-stofnunin veitt Íslandi styrk í formi aðstoðar sérfræðings stofnunarinnar, Nicole Dubus, sem verður til aðstoðar fyrir þá aðila sem koma að móttöku fólksins s.s. sveitarfélög og Rauða krossinn.

Enn er ekki ljóst hversu stór hluti fólksins mun þiggja boðið til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert