Stefnan þingfest fyrir jól

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarlögmaður undirbýr nú stefnu gegn ríkinu vegna vanefnda þess á samningi við Reykjavíkurborg um lokun á einni flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Ekki liggur fyrir hvenær stefnan verður þingfest en það verður þó fyrir jól, að sögn Kristbjargar Stephensen, borgarlögmanns.

Meirihluti borgarráðs samþykkti að fela borgarlögmanni að stefna ríkinu eftir að innanríkisráðherra lýsti því í bréfi til borgarinnar að hann ætlaði ekki að verða við kröfu borgarstjóra um að loka NA/SV-flugbraut Reykjavíkurflugvallar eða að breyta skipulagsreglum að svo stöddu. Þetta telur borgin í andstöðu við samkomulag sem gert var við ríkið ári 2013.

„Við erum að gera stefnu og undirbúa það en ég get ekki alveg sagt fyrir um hvenær málið verður þingfest. Það verður aðeins að koma í ljós en það verður allavegana fyrir jól,“ segir Kristbjörg.

Verið er að móta dómkröfu borgarinnar og því segir borgarlögmaður ekki tímabært að svara fyrir hvað muni felast í stefnunni efnislega.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði að höfðað yrði staðfestingarmál að viðlögðum skaðabótum til að farið yrði að samningum þegar ákvörðun innanríkisráðherra varð ljós 19. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert