Sýknaður af ákæru um nauðgun

mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands sýknaði á miðvikudag 17 ára dreng af ákæru um nauðgun og brot gegn barnaverndarlögum gagnvart 16 ára stúlku. Var hann ákærður fyrir að hafa haft samræði við stúlkuna gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar.  Atburðurinn átti sér stað í heimahúsi í september í fyrra þar sem stúlkan og vinkona hennar höfðu ætlað að gista í tengslum við útihátíð.  

Stúlkan segir ákærða hafa legið við hlið sér uppi í koju og hún hafi sagt honum að ekki yrði af neinu, en hún hafi verið að detta út sökum ölvunar. Hún hafi síðan vaknað við að ákærði var að hafa við hana samfarir. Ákærði neitaði sök og sagði þau hafa haft kynmök með fullu samþykki stúlkunnar.   

Í vottorði Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings hjá Barnahúsi, kemur fram að allt viðmót brotaþola „bendi til þess að hún hafi upplifað mikinn ótta við meinta nauðgun sem hafi leitt til mikils kvíða. Hafi hún lokað sig af frá samfélaginu og misst úr skóla.“

Var það mat dómsins að framburður stúlkunnar væri ekki ótrúverðugur og misræmi í framburði hennar mætti rekja til ölvunarástands hennar umrætt kvöld og þess hve langur tími leið frá því atburðurinn átti sér stað og þar til aðalmeðferð málsins fór fram.  Ekki verði hins vegar talið að ákæruvaldið hafi fært viðhlítandi sönnur á að ákærði hafi af ásetningi notfært sér að brotaþoli gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar og var hann því sýknaður af sakargiftum og einkaréttarkröfu vísað frá dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert