Stúdentar óánægðir með framkvæmdir

Framkvæmdir hafa staðið yfir við húsnæði hjónagarða að Eggertsgötu 4 undanfarið og valdið íbúum töluverðum óþægindum. Íbúar hússins hafa sent Félagsstofnun stúdenta, sem hefur umsjón með stúdentagörðum, kvörtunarbréf þar sem umgengni verktaka er sögð með öllu ólíðandi, en nærri var að upp úr syði þegar vatn flæddi inn í húsið eftir rigningu fyrr í vikunni.

Eitt helsta umkvörtunarefni íbúanna er hávaði sem hlýst af framkvæmdunum, en mikið er af barnafólki í byggingunni. Þá hafi verktakar skilið aðalinngang byggingarinnar eftir opinn, en í bréfinu segir að ár sé síðan öllum skóm í húsinu var stolið. Reykingar iðnaðarmanna á svölum hússins séu sagðar óásættanlegar og finnst íbúum ekki vera borin virðing fyrir því að þarna sé um að ræða heimili fólks.

Vatn flæddi inn

Í vatnsveðrinu síðastliðinn mánudag flæddi síðan inn í húsið, líkt og sést á myndskeiðinu hér að ofan. Kalla þurfti til slökkvilið til að dæla vatninu út. Íbúi sem mbl.is ræddi við, en vill ekki koma fram undir nafni þar sem hann vill ekki vera í forsvari fyrir íbúa hússins, segir íbúana vera ósátta en upp úr hafi soðið þegar vatnið flæddi inn.

„Þeir voru að gera niðurfall af þakinu sem fór framhjá sameiginlegum svölum og gerðu bara gat í þakið og kláruðu verkið ekki fyrir þetta syndaflóð sem kom á mánudaginn, þetta rosalega regn, svo það flæddi inn á þessar svalir.“

Mikið vatn safnaðist upp á svölunum, líklega um 15 cm, og flæddi það undir hurðina og inn á hæðina sem svalirnar standa á, en þar eru geymslur íbúa.

„Það flæddi inn á geymslur hjá einhverjum og í gegnum gólfið og það flæddi bara og flæddi. Íbúar tóku svo eftir þessu og það var reynt að hafa samband við Félagsstofnun stúdenta sem ætlaði að hafa samband við verktakann á meðan það var að flæða, en að lokum hringdu íbúar bara í slökkviliðið sem kom og dældi upp úr.“

Spurður um eignatjón af völdum vatnsins segist íbúinn ekki vita hvort eða hversu mikið það hafi orðið, sjálfur hafi hann sloppið við það.

„Það flæddi þarna inn á sameignina og fór í gegnum gólfið, því það er orðið svo gamalt að það eru sprungur sem vatn kemst í gegnum, svo það fór til dæmis inn í mína geymslu. Við vorum bara svo fljót að bregðast við að það dropaði ekki á neitt verðmætt.“

Svalirnar sem flæddi inn á.
Svalirnar sem flæddi inn á. Ljósmynd/Aðsend

Ekki líft inni í íbúðunum á stundum

Hann segir FS hafa brugðist að hluta við kvörtunum íbúa, t.d. eigi múrbrot að hætta á laugardögum, auk þess sem mikilvægi þess að loka aðalinngangi hússins hafi verið ítrekað. „FS tók verktakana víst á teppið, en kannski dugir það bara í einhverja viku og þá þarf að gera það aftur.“

„Þau eru alveg með okkur í liði, en hafa ekki sinnt neinu eftirliti með framkvæmdunum, sem er kannski ástæða þess að allt fór í háaloft.“

Íbúar séu þó ósáttir með misvísandi upplýsingar varðandi verklok einstakra þátta og segir íbúinn sem rætt var við ekki vita hvort kenna eigi FS eða verktakanum um það. „Það er búið að segja að þessi hluti framkvæmdanna verði búinn á þessum tíma en svo stenst það ekkert.“

Íbúar sendu fyrirspurn á FS, þar sem leitað var þess að leigan yrði lækkuð og vísuðu í 21. grein húsaleigulaga, sem kveður á um að leiði viðgerðar- eða viðhaldsvinna á vegum leigusala til verulega skertra afnota eða afnotamissis skuli leigusali bæta leigjendum það með hlutfallslegum afslætti af leigugjaldi eða á annan hátt er aðilar koma sér saman um.

Spurður hvort afnot séu skert nú, segir íbúinn svo vera. „Flestir eru með lítil börn sem þola ekki hávaðan af framkvæmdunum. Það er mikið múrbrot, það er verið að brjóta veggina að utan og þá er ekki líft inni í íbúðunum á meðan á þeirri hlið sem er verið að brjóta upp og flýr bara. Eins fólk sem er í vaktavinnu og sefur á daginn, það gerir það ekkert.“

„Það er dálítið eins og það sé ekki gert ráð fyrir íbúum á meðan á framkvæmdum stendur. Það eru mikil læti og mikið af barnafólki þarna.“

Leiga íbúanna mun þess í stað hækka, líkt og annars staðar á stúdentagörðunum, en 5% hækkun tekur gildi í september. Þá hafi íbúar fengið þau svör að þeir geti verið fegnir því að leigan á hjónagörðum hafi ekki verið hækkuð enn frekar, vegna framkvæmdanna. „Þau eru ekki að gera okkur greiða, það er bara trassaskapur hjá þeim að hafa ekki farið fyrr í þessar framkvæmdir eða gert þær jafnóðum. Það er svolítið skítlegt viðmót.“

„Það er verið að gera allt núna. Það er sumsé verið að taka alla hluta hússins, bæði inni og úti. Það er svolítið skrítið að ætla að gera þetta allt í einum rykk, því þarna er fólk með tímabundna búsetu, það er ekki verið að vernda þeirra fasteign.“

FS segir framkvæmdirnar eðlilegar

Mbl.is setti sig í samband Félagsstofnun stúdenta, sem segir húsið hafa verið tekið í gegn fyrir um 25 árum, en það er byggt um miðjan áttunda áratuginn.

Viðgerðirnar nú séu því eðlilegar viðhaldsframkvæmdir, tími sé einfaldlega kominn á þær, en rétt sé að álagið hafi verið mikið í sumar. „Þetta eru utanhússframkvæmdir sem er bara hægt að vinna á sumrin. Við reynum að hlífa íbúum við ónæði á veturna þegar þau eru að læra og á ákveðnum tímum ársins getum við ekki verið með neinar framkvæmdir í húsinu.“

Íbúar hafi verið beðnir um að lista upp þau atriði sem helst væri óánægja með og brugðist hafi verið við þeim. „Í svona framkvæmdum er ýmislegt sem þarf að vera í lagi, líkt og umgengni á vinnustað, þrif og því um líkt. Við höfum verið að bregðast við þessu alveg eins og skot, eins og við getum. Múrbrotinu lýkur í þessari viku og það hefur verið mesta álagið fyrir íbúana.“

Þá hefur FS ekki fengið neinar upplýsingar um tjón af völdum vatnsins sem flæddi inn í húsnæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert