Ofbeldismaður handtekinn í tvígang

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann tvisvar í gær fyrir heimilisofbeldi. Í síðara skiptið var klukkustund liðin frá því hann losnaði úr haldi. Hann gistir fangaklefa í nótt. Hann er ekki sá eini sem gistir fangaklefa á höfuðborgarsvæðinu vegna heimilisofbeldis. 

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að hann hafi í síðara skiptið verið handtekinn skömmu fyrir níu í gærkvöldi í austurhluta Reykjavíkur: „Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. Maðurinn hafði losnað úr fangageymslu lögreglu rúmlega klst. áður þar sem hann hafði verið vistaður fyrir heimilisofbeldi,“ segir í dagbók lögreglunnar.

Skömmu fyrir eitt í nótt var annar maður handtekinn í austurhluta Reykjavíkur vegna heimilisofbeldis og er hann vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.   

Á þriðja tímanum í nótt var síðan sá þriðji handtekinn í Hafnarfirði grunaður um heimilisofbeldi. Sá er einnig vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.

Ung kona var handtekin í Hafnarfirði um níuleytið í gærkvöldi en hún var í mjög annarlegu ástandi. Lögreglan fór með hana á slysadeild Landspítalans þar sem ástand hennar var rannsakað en í kjölfarið var hún vistuð í fangaklefa. Gistir hún þar þangað til ástand hennar batnar.

Um fimm í morgun var maður handtekinn á lokuðu athafnasvæði Eimskipa við Sundahöfn.  Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls en ítrekað hafa komið upp mál þar sem hælisleitendur reyna að komast frá landinu sem laumufarþegar um borð í millilandaskipum félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert