Bjarni kom að hitta Benedikt

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir þá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, …
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir þá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hafa rætt stöðu mála. Eggert Jóhannesson

Ráðherrabíll Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sást fyrir utan útgáfufyrirtækið Heim nú í kvöld og staðfestir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, að Bjarni hafi komið að heimsækja sig.

„Hann kom og hitti mig það er rétt,“ segir Benedikt, en vill ekki meina að viðræður þeirra Bjarna hafi snúist um mögulega stjórnarmyndun. „Við vorum að ræða um ástandið, eins og ég er búin að ræða við flest alla formenn flokkanna í dag og í gær.“ 

Benedikt segir Bjarna hafa stoppað í um hálftíma. „Þetta var bara svona spjall. Við vorum að fara yfir hverjir væru möguleikarnir enn einu sinni og hverjir væru útilokaðir. Ég held að það hafi ekki verið sagt margt sem ekki hefur verið sagt áður, en stundum þarf að fara yfir málin aftur,“ bætir hann við.   

Auk Bjarna, kveðst Benedikt í dag hafa rætt við Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata og þá Óttar Proppé, formann Bjartrar framtíðar og Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar. „Ég hugsa að ég hafi talað lengst við Birgittu,“ segir hann og bætir við að hann hafi hins vegar hvorki rætt við Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra né Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Umræðurnar í dag hafi hins vegar verið dauflegri en hann hefði búist við eftir orð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands í morgun, er hann kaus að veita engum einum formanni stjórnarmyndunarumboð að sinni. „Ég skildi hann þannig að það væru einhverjir möguleikar í stöðunni sem hann byndi miklar vonir við. Fólk er hins vegar bara að reyna að að átta sig á hverjir möguleikarnir, ef einhverjir, geta verið.“

Það séu þó ekki bara formennirnir sem séu að ræða saman og leita lausna. „En það er náttúrulega búið að loka mörgum möguleikum, þannig að menn verða að reyna að meta þetta aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert