Drónar hafa flogið yfir svæðið

Björgunarsveitarmenn að störfum í Hafnarfirði.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Hafnarfirði. mbl.is/Golli

Ekki er 100% ljóst að skórnir sem fundust í Hafnarfirði í gærkvöldi séu af Birnu Brjánsdóttur. „Í augnablikinu göngum við út frá því að þetta séu skór sem við þurfum að afla upplýsinga um. Ein kenningin er að þetta séu hennar skór og við þurfum að afla allra upplýsinga um það,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem hefur umsjón með rannsókn á hvarfi Birnu.

Drónum hefur verið flogið yfir svæðið þar sem skórnir fundust, skammt frá birgðastöð Atlantsolíu.

Grímur gat ekki gefið upplýsingar um hvernig leitinni að Birnu verður háttað í dag. Fyrst ætlar hann að hitta kollega sína í stjórnstöð leitarinnar og munu þeir bera saman bækur sínar.

Hann segir að Birna hafi ekki sést á neinum myndavélum öðrum en þeim sem mynduðu hana ganga í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags.

„Við getum ekki staðfest að hún hafi verið á neinum öðrum stað en þar sem við misstum sjónar á henni við Laugaveg 31, eða þar um bil. Við munum hafa uppi á öllum myndavélum sem hugsanlega geta gefið okkur einhverjar upplýsingar.“

Grímur segir að málið sé rannsakað sem mannshvarf. „Það er ekki hægt að draga fjöður yfir það, ef við göngum út frá því að þetta séu skór Birnu, þá eru meiri líkur en minni á að eitthvað hafi komið fyrir hana,“ segir hann og vill ekki halda því fram að málið sé rannsakað sem sakamál.

„Við beitum öllum þeim rannsóknaraðferðum sem eru í okkar tækjabelti. Það eru sömu rannsóknaraðferðir og eru notaðar við rannsóknir sakamála.“

Kort/Loftmyndir-mbl.is

Auglýst var eftir einhverjum sem gæti gefið upplýsingar um rauða bifreið af tegundinni Kia. Lögreglan er búin að fá upplýsingar um alla bíla af þessari tegund. „Við munum fara í að vinna okkur niður þann lista,“ segir Grímur.

Almenningur hefur verið beðinn um að hætta leitinni og láta lögreglu og björgunarsveitir annast hana. Spurður hvort það standi enn, segist Grímur búast við því. „Ég geng út frá því að það sé reynt að halda svæðinu þannig að það séu bara leitarmenn sem eru þar.“

Ekki hefur enn tekist að komast inn á reikning Birnu á einum af samskiptamiðlum hennar og segir Grímur að verið sé að reyna það.

Lögreglan hefur einnig beðið um upplýsingar hjá símafyrirtækjum til að samkeyra farsímagögn svo að hægt sé að athuga hvaða símar sendu frá sér gögn á sama tíma og stað og sími Birnu. Þær upplýsingar hafa enn ekki borist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert