Fékk verðlaunin 50 árum síðar

Benedikt Jóhannesson og Friðrik Ólafsson tóku eina skák í gærkvöldi …
Benedikt Jóhannesson og Friðrik Ólafsson tóku eina skák í gærkvöldi og höfðu gaman af. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, fékk í gærkvöldi afhent verðlaun fyrir sigur á barnaskákmóti TR fyrir 50 árum. „Þetta hefur verið erfið bið og bitur en hún sýnir að þó tíminn lækni ekki öll sár, getur það læknað að fá launin á endanum,“ segir hann og hlær við.

Jón Þorvaldsson, stjórnarmaður í skákfélaginu Hugin, afhenti ráðherra verðlaunin að loknu Nóa Síríus-mótinu 2017, gestamóti Hugins og skákdeildar Breiðabliks. Jón var leiðbeinandi hjá Taflfélagi Reykjavíkur fyrir hálfri öld og stóð fyrir fyrrnefndu barnaskákmóti 1967.

Góð skýring

„Þegar Benedikt var 12 ára bar hann höfuð og herðar yfir alla krakkana í TR og ég hafði þá á orði að þarna væri komið einstakt efni. Ég hét góðum verðlaunum á mótinu og hafði í huga skákbók um töframanninn frá Riga, Mikhail Tal, helsta fórnar- og fléttuskákmann þessa tíma.“ Einhverra hluta vegna gleymdist að afhenda Benedikt verðlaunin og það var ekki fyrr en þeir félagar hittust fyrir skömmu að sannleikurinn kom í ljós. Jón segist hafa spurt Benedikt hvers vegna hann hafi hætt að tefla, hvort það hafi verið vegna þess að leiðbeinandinn hafi verið svo leiðinlegur. Benedikt hafi svarað því til að það hafi ekki verið ástæðan heldur hafi hann aldrei fengið verðlaunin.

„Þetta er nú ekki alveg sannleikanum samkvæmt,“ segir Benedikt og bætir við að á unglingsárunum hafi hann áttað sig á því að ef hann ætlaði að ná verulegum árangri í skák yrði hann að eyða mjög miklum tíma í hana. „Ég hefði ekki gert neitt annað og var auk þess farinn að hafa áhuga á öðru. Það réð úrslitum.“

Þegar Benedikt var fimm ára byrjaði hann að fylgjast með Tómasi, bróður sínum, tefla við Harald Blöndal, frænda þeirra. „Þannig lærði ég mannganginn,“ segir hann og bætir við að fljótlega hafi pabbi hans gefið honum skákbók, þar sem farið hafi verið yfir leyndardóma skákarinnar. „Við það að lesa þessa bók snarfór mér fram,“ segir hann og leggur áherslu á að hann hafi lesið allt sem hann hafi komist yfir um skák. „Það er ekki nokkur vafi að ef ég hefði fengið verðlaunin á sínum tíma hefði ég orðið enn betri skákmaður!“

Þótt Benedikt hafi ekki lagt rækt við skákina teflir hann reglulega og á móti fyrir þremur árum var hann næstur á eftir stórmeisturunum Helga Ólafssyni, Jóhanni Hjartarsyni, Jóni L. Árnasyni og Friðriki Ólafssyni. „Þetta sómir sér ágætlega í skáksögu minni,“ segir hann.

Verðlaunin í gærkvöldi voru bók, sem var gefin út um Tal 2015. Jón segir að þó hún sé verðmætari en sú sem til stóð að gefa fyrir hálfri öld, viti núverandi fjármálaráðherra að vinningur að verðmæti 4.000 kr. 1967 standi nú í 4,3 milljónum króna miðað við 15% dráttarvexti. „Ég tek Jón í sátt og geng sáttur frá taflborðinu,“ segir Benedikt um verðlaunin. Jón vonast til þess að bókin góða örvi eigandann til nýrra dáða. „Benedikt hefur þegar verið boðið að keppa á MótX-skákhátíðinni á næsta ári og við aðstandendur hátíðarinnar bíðum spenntir eftir svari frá honum.“

Skákmeistarar. Frá vinstri: Jón L. Árnason, Guðmundur Þórarinsson, Helgi Ólafsson, …
Skákmeistarar. Frá vinstri: Jón L. Árnason, Guðmundur Þórarinsson, Helgi Ólafsson, Benedikt Jóhannesson, Margeir Pétursson og Friðrik Ólafsson. Ljósmynd/Markús Örn Antonsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert