Friðrik Þór nýr formaður Heimdallar

Friðrik Þór Gunnarsson.
Friðrik Þór Gunnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Friðrik Þór Gunnarsson var kosinn formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á aðalfundi félagsins í kvöld og Elísabet Inga Sigurðardóttir varaformaður.

Fráfarandi formaður, Albert Guðmundsson laganemi, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Framboð Friðriks hlaut 601 atkvæði eða 70,37% atkvæða. Framboð Lísbetar Sigurðardóttur fékk 248 atkvæði eða 29%. Alls greiddu 854 atkvæði á fundinum en 5 atkvæði voru auð eða ógild.

Friðrik Þór stundar nám í hagfræði við Háskóla Íslands og hyggst ljúka BSc-gráðu í vor. Friðrik hefur verið virkur í félagsstörfum, innan sem utan háskólans, m.a. í Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta. Þá hefur Friðrik setið í stjórn Heimdallar frá árinu 2015 en hann gegndi stöðu gjaldkera í stjórn, Alberts Guðmundssonar, að því er kemur fram í tilkynningu. 

Heimdallur, sem fagnar nú 90 ára afmæli sínu, mun blása til veislu í Valhöll á morgun, laugardag. Forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, mun flytja hátíðarræðu við tilefnið. Þá mun fráfarandi formaður, Albert Guðmundsson, heiðra nokkra valinkunna einstaklinga með því að veita þeim gullmerki Heimdallar. Þar á meðal er elsti núlifandi formaður Heimdallar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert