Andlát: Magnús Oddsson

Magnús Oddsson
Magnús Oddsson

Magnús Oddsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi, lést á Landspítalanum við Hringbraut síðastliðinn þriðjudag, 81 árs að aldri. Magnús fæddist 17. nóvember 1935 og ólst upp í Reykjavík.

Foreldrar hans voru Oddur Erik Ólafsson, verkstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og kona hans, Guðný Maren Oddsdóttir, húsfreyja.

Að loknu námi í Laugarnesskólanum fór Magnús í Kvöldskóla KFUM og Iðnskólann í Reykjavík, jafnframt því sem hann lærði rafvirkjun hjá Vilberg Guðmundssyni í Segli. Síðan stundaði hann framhaldsnám í rafmagnsdeild Vélskóla Íslands og rafmagnstækninám í Tækniskóla Kaupmannahafnar og tók lokapróf 1964.

Magnús starfaði á háspennuverkstæði og á verkfræðideild Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Hann kenndi um skeið rafmagnsfræði í Vélskóla Íslands og starfaði hjá Raftækjasmiðju Ólafs Tryggvasonar.

Árið 1968 réðist hann sem rafveitustjóri til Rafveitu Akraness og gegndi því starfi til 1974. Þá var hann ráðinn bæjarstjóri á Akranesi næstu 4 árin og endurráðinn 1978-´82. Síðan tók hann aftur við starfi rafveitustjóra og gegndi því til 1995.

Árið 1995 var hann ráðinn veitustjóri Akranesveitu, sem var þá nýstofnuð og gegndi hann jafnframt starfi framkvæmdastjóra Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Þessum störfum gegndi Magnús fram á árið 2000.

Magnús starfaði mikið í íþróttahreyfingunni. Var formaður ÍA 1984-1992 og varaforseti ÍSÍ í 1992-1997. Var heiðursfélagi bæði í ÍA og ÍSÍ. Hann átti sæti í fjölda nefnda og gegndi trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna og Akraneskaupstað.

Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Svandís Pétursdóttir sérkennari. Sonur þeirra er Pétur, forstjóri Hrafnistuheimilanna. Barnabörnin eru þrjú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert