Vorið væntanlegt eftir helgi

Nú þarf að krossa fingur og vona að spáin rætist.
Nú þarf að krossa fingur og vona að spáin rætist. mbl.is/Styrmir Kári

Svo virðist sem veturinn ætli að sleppa tökunum á landsmönnum um helgina og að vorsins megi vænta í næstu viku. 16,2 gráður mældust á Höfn í Hornafirði í dag og er því dagurinn í dag með hlýjustu dögum ársins á Suðausturlandi.

Hlýindin sem standa nú yfir verða þó frekar skammvinn að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Á morgun fer að snjóa sums staðar síðdegis, m.a. á fjallvegum, jafnvel á Hellisheiði, Holtavörðuheiði og heiðunum á Vestfjörðum. Spáð er rigningu á láglendi og verður nokkuð vetrarlegt aftur að sögn Þorsteins.

„Hitinn á morgun verður tvískiptur, það verður hlýtt og fínt fyrir austan og fer upp í 12 stiga hita en á vestanverðu landinu nálgast hann 1-3 gráður seinnipartinn. Síðan verður eiginlega bara snjókoma á öllu landinu og það kólnar,“ segir Þorsteinn og bendir á að aðfaranótt föstudags verði slydda og jafnvel snjókoma þar sem ofar dregur.

Hann segir að það verði svolítið vetrarlegt fram á sunnudag en þá fer að hlýna. „Mér sýnist það að vorið verði komið eftir helgi. Þá verður alla vega orðið mun vorlegra með hækkandi hitatölum en sterkum austanáttum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert