Verður að koma böndum yfir æðið

Barn að leik með þyrilsnældu í New York, en leikfangið …
Barn að leik með þyrilsnældu í New York, en leikfangið nýtur mikilla vinsælda hjá íslenskum og erlendum börnum. AFP

Sannkallað þyrilsnælduæði hefur gripið um sig meðal íslenskra barna, líkt og jafnaldra þeirra í Evrópu og Bandaríkjunum. Þó að þyrilsnældan [e. fidget spinner] hafi verið hönnuð með það í huga að draga úr streitu og auka einbeitingu þykja áhrif hennar á skólastarf ekki endilega jákvæð.

Skólar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi hafa gripið til þess ráðs að banna notkun snældunnar og í síðustu viku bættist Háaleitisskóli í Reykjavík í þann hóp.

Í síðustu viku fengu foreldrar nemenda í skólanum sent bréf þar sem óskað var eftir að börn skildu þyrilsnælduna eftir heima.

„Það hafa komið ýmis æði sem grípa huga barnanna og maður verður að koma böndum yfir þau,“ segir Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla. „Þetta er eins og var með fótboltamyndirnar á sínum tíma,“ útskýrir hún.

Varð að æði á einni nóttu

Notkun á snældunum hafi, eftir að æðið greip um sig, verið farið að valda truflun í kennslustundum.

„Það var eins og þetta hefði gerst á einni nóttu, því allt í einu var annað hvert barn komið með þetta,“ segir Hanna Guðbjörg.

Snældan snýst og við það leitar athygli barnanna á brott …
Snældan snýst og við það leitar athygli barnanna á brott frá námsefninu. AFP

Þess vegna hafi verið ákveðið að banna notkun snældunnar í tímum. „Það er allt í lagi að skilja svona hluti eftir í töskunni eða heima á meðan börnin eru í skólanum.“  Spurð hvort börn geti ekki verið með snælduna í frímínútum segir hún það oft vera þannig að þegar gefinn sé smá slaki sé reynt að komast aðeins lengra.

Hanna Guðbjörg kveðst þó skilja vel að leikfangið sé spennandi fyrir krakkana. „Þetta er hins vegar nokkuð sem maður þarf að einbeita sér svolítið að og sem tekur athyglina frá öðru sem er í gangi, til að mynda kennslunni.“

Hún segir beiðni skólayfirvalda hafa fallið í góðan jarðveg, börnin hafi hlýtt og hún hafi ekki orðið vör við að foreldrar séu ósáttir. „Það hefur að minnsta kosti ekkert komið til mín varðandi það,“ segir hún.

„Annars er þyrilsnældan bara leikfang og þau eru ekki í boði í skólanum. Hversu skemmtileg sem þau eru eiga þau sinn stað og stund og það er ekki í skólanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert