Gekk örna sinna við Reykjanesbraut

Ferðamaðurinn hægði sér nokkrum metrum frá hraðbrautinni Reykjanesbraut, þar sem …
Ferðamaðurinn hægði sér nokkrum metrum frá hraðbrautinni Reykjanesbraut, þar sem mikið er um umferð alla jafna. Rax / Ragnar Axelsson

Ármann Óskarsson, nemi í iðnaðarverkfræði, kom auga á erlendan ferðamann að hægja sér við eina fjölförnustu götu landsins í síðustu viku. Hann náði atvikinu á myndband og telur atvikið aðallega fyndið.

Ármann var staddur í vinnunni þegar hann kom auga á erlendan ferðamanninn. Hann hélt að um væri að ræða enn einn slíkan villtan í hrauninu. „Við höfum útsýni yfir hraunið og Reykjanesbrautina. Það hefur verið að villast eitthvert fólk þarna í sumar,“ segir Ármann.

Hafa villtir ferðamenn síðan orðið ákveðinn vinnustaðahúmor. Hann ætlaði því að ná mynd af manninum, til að senda á vinnufélaga sinn. „Vill þá ekki betur til en að viðkomandi sest niður og byrjar á þessu,“ segir Ármann og hlær. Viðkomandi hysjaði svo upp um sig og húkkaði sér far úr bænum.

Aðallega fyndið 

Ármann segist hafa deilt myndbandinu í gríni og að atvikið sé í sjálfu sér ekki alvarlegt. „Á meðan þetta er bara svona saklaust þá er þetta aðallega fyndið, en þegar þetta er komið í garða hjá fólki þá er það náttúrulega ekki nógu gott,“ segir hann, „það á enginn leið þarna um. Þetta truflar engan. Þetta var bara sérstaklega fyndið þar sem þetta var við eina fjölförnustu götu landsins.“

Undanfarið hafa ferðamenn hérlendis að ganga örna sinna hvar sem þeim sýnist verið mikið í umfjöllun. Ferðamenn hafa verið gripnir glóðvolgir á ýmsum stöðum, til dæmis í kirkjugörðum og við póstkassa fólks. Aðfaranótt sunnudags gekk Þorsteinn Björnsson, nemi við Háskóla Íslands, fram á tvo ferðamenn að hægja sér í Hallargarðinum. Sumir hafa jafnvel gripið til þess ráðs að fá sér skiltið „Örnamanninn“, sem bendir ferðamönnum á að gera ekki þarfir sínar á tilteknu svæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert