Ölvaður á 131 km hraða

mbl.is/Ernir

Lögreglan stöðvaði för ökumanns á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg á fjórða tímanum í nótt en bifreiðinni var ekið á 131 km hraða. Hámarkshraði þarna er 80 km/klst. Ökumaðurinn reyndist einnig vera ölvaður við aksturinn.

Annar ökumaður var stöðvaður á Sæbraut í gærkvöldi og ók hann á 108 km hraða en leyfilegur hámarkshraði á Sæbraut er 60 km/klst.

Lögregla stöðvaði rúmlega 100 bifreiðar á Hafnarfjarðarvegi við eftirlit með ölvunarakstri og réttindum ökumanna í nótt. Aðeins einn ökumaður reyndist vera undir áhrifum og með útrunnin réttindi.

Ölvaður ökumaður var stöðvaður á Háaleitisbraut klukkan rúmlega fjögur í nótt og á Írabakka hafði lögregla afskipti af ökumanni sem talinn er hafa verið undir áhrifum fíkniefna seint í gærkvöldi. Á fimmta tímanum í nótt var ökumaður sem talinn er hafa verið undir áhrifum fíkniefna stöðvaður á Reykjanesbraut við Dalveg. 

Ökumaður sem lögreglan stöðvaði við Hverafold í nótt er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna auk aksturs án réttinda, þar eð hann hefur aldrei öðlast slík réttindi. Þessu til viðbótar var hann með fíkniefni á sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert