Talinn hafa lent á tveimur bílum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar tildrög banaslyssins ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar tildrög banaslyssins ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa. mbl.is/Þórður

Karlmaðurinn sem lést í umferðarslysinu á gatnamótum Sæbrautar og Kirkjusands í Reykjavík á mánudaginn varð fyrir fólksbíl sem var að draga annan fólksbíl.

Grunur er um að maðurinn, sem var á hjóli, hafi lent bæði á fremri og aftari bílnum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar tildrög slyssins ásamt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er grunur um hraðakstur þegar slysið varð, auk þess sem engin hálka var á götunni. Fólksbíllinn dró hinn bílinn með taug, að sögn Guðmundar Páls Jónssonar lögreglufulltrúa, en hámarkshraði við slíkar aðstæður er 30 km á klukkustund. 

Að sögn Guðmundar hefur fólk sem varð vitni að slysinu verið yfirheyrt bæði í gær og í dag. Óskað var eftir vitnum að slysinu og gáfu nokkrir sig fram við lögregluna í framhaldinu.  

Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert