„Auðvelt að verðleggja sig út af markaðnum“

Arnar segir það vera algjört lykilatriði að standa vörð um …
Arnar segir það vera algjört lykilatriði að standa vörð um samkeppnishæfni Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi erlendra ferðamanna sem hefur komið til Íslands það sem af er ári er meiri en á sama tíma í fyrra. Þó dvelja þeir hér skemur og skilja eftir minni verðmæti.

Þetta segir Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is.

Ef skoðað er mælaborð ferðaþjónustunnar má sjá að erlendum brottfarafarþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgaði í bæði janúar og febrúar miðað við árið 2023.

Arnar nefnir að uppsafnaður brottfarafjöldi erlendra ferðamanna það sem af er ári sé um 11% yfir árinu í fyrra og að það verði forvitnilegt að sjá hvernig mars komi út. Brottfarartalningar eru þó alltaf birtar með ákveðnum fyrirvara segir Arnar jafnframt.

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri.
Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Jarðhræringar virðast ekki hafa valdið fækkun

Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga virðast ekki hafa valdið verulegri fækkun ferðamanna þó ekki sé hægt að útiloka að það breytist.

„Við vitum ekki hvernig árið verður vegna eldsumbrota og ef það gerist eitthvað meira – hugsanlega stærra en það sem er í gangi núna – þá er gríðarlega erfitt að hafa stjórn á stórum erlendum fjölmiðlum sem gætu hugsanlega valdið skaða með dramatískum yfirlýsingum sem oft á tíðum byggjast ekki á staðreyndum,“ segir Arnar.

Spáin um fjölda ferðamanna stemmir

Ferðamálastofa spáði að í ár myndu koma 2,4 milljónir ferðamanna til landsins. Þær spár voru byggðar á þeim forsendum að árið yrði áfallalaust.

Stemmir fjöldi ferðamanna fyrstu tvo mánuðina við spána sem þið höfðuð gert?

„Já. En það eru svo margir víxlverkandi þættir sem mynda eftirspurn og sumir þeirra eru eitthvað sem er í okkar höndum og aðrir utanaðkomandi þættir sem við höfum enga stjórn á. Á þessum tímapunkti – árið er nýfarið af stað – er mjög erfitt að segja hvort að þessi spá komi til með að standast eða ekki. En það má lítið út af bregða til að það verði samdráttur og verðið er þar stór þáttur,“ segir Arnar.

Ferðamenn skilja eftir sig minni verðmæti

Í frétt Morgunblaðsins í dag eru viðtöl við forstjóra Icelandair, Play og formann Fyr­ir­tækja í hót­el- og gistiþjón­ustu (FHG). Þar kom fram að hlutfall tengifarþega væri að aukast hjá Icelandair og þar með hlutfall ferðamanna sem kæmi til Íslands að minnka. Formaður FHG sagði að nokkur samdráttur væri á fjölda ferðamanna til landsins og að fyrstu mánuðir ársins væru ákveðin vonbrigði.

Arnar telur að það sem hafi hér áhrif á umræðuna sé mögulega sú staðreynd að ferðamenn eru að dvelja skemur á landinu en á sama tíma og í fyrra. Þetta sé áhyggjuefni þar sem ferðamaðurinn er þá að skilja eftir sig minni verðmæti í landinu.

„Ég er búinn að vera nógu lengi í þessum bransa til að vita það að verðteygni í ferðaþjónustu er mikil og þannig auðvelt að verðleggja sig út af markaðnum. Þau lönd sem við erum í samkeppni við eru orðin samkeppnishæfari en við út frá verði og þau eru að markaðssetja sig markvisst. Áhugi á Íslandi er mikill en ef við erum of dýr þá horfa ferðamenn gjarnan eitthvert annað,“ segir hann og bætir við:

„Þess vegna er mjög mikilvægt að við hefjum þetta markvissa samtal við þá markhópa sem við kjósum öðrum fremur að fá hingað. Hátt verð er ekki truflandi í augum allra.“

Lykilatriði að standa vörð um samkeppnishæfni Íslands

Hann segir það vera algjört lykilatriði að standa vörð um samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn.

„Þar hef ég sérstakar áhyggjur af verðlagsþróun. Jafnframt er mikilvægt að blása í seglin hvað varðar markaðssetningu á erlendum mörkuðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert