Tæplega 1.500 beiðnir til Google frá Íslandi

Oftast eru það fréttir sem óskað hefur verið eftir að …
Oftast eru það fréttir sem óskað hefur verið eftir að Google fjarlægi úr leitarniðurstöðum sínum. AFP

Google hefur borist tæplega 1.500 beiðnir frá Íslandi þar sem farið er fram á að 6.399 leitarniðurstöður verði fjarlægðar úr leitarvél Google á grundvelli niðurstöðu Evrópudómstólsins frá árinu 2014.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Google. Samkvæmt henni hefur beiðnum frá Íslandi fjölgað ár frá ári en Evrópudómstóllinn ákvað að einstaklingar ættu rétt á því að fara fram á að leitarvélar fjarlægðu ákveðnar leitarniðurstöður um þá.

Í úrskurði dómstólsins kom fram að einstaklingar hefðu rétt á að biðja leitarvélar eins og Google um að afskrá ákveðnar niðurstöður fyrir fyrirspurnir á grundvelli nafns einstaklings.

Fram kemur í skýrslunni að í tæplega 60 prósentum tilvika hafi Google orðið við beiðnunum. Flestar beiðnirnar koma frá einstaklingum eða í tæplega 94% tilvika.

Oftast eru það fréttir sem óskað hefur verið eftir að Google fjarlægi en alls hafa borist 1.828 beiðir til Google um að fjarlægja fréttasíður úr leitarniðurstöðum sínum. Þá hefur Google borist beiðnir um að fjarlægja 595 samfélagsmiðlasíður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert