Ekki tilbúinn fyrir upptökur RÚV

Frá stofnfundi Miðflokksins.
Frá stofnfundi Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að flokknum þyki leitt að í málefnaþáttum, sem sýndir eru RÚV, hafi verið tilkynnt, án eðlilegra skýringa, að Miðflokkurinn hafi hafnað þátttöku.

 „Við viljum því benda á að málefnaþættir RÚV voru teknir upp fyrir 7 til 10 dögum, töluverðu áður en framboðsfrestur rann út. Á þeim tíma hafði Miðflokkurinn enga birta málefnastefnu né staðfesta frambjóðendur,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að af þeim sökum hafi ekki verið talið ábyrgt að taka þátt í upptökum þátta sem átti að sýna tíu dögum síðar, og það hafi að sjálfsögðu verið útskýrt fyrir Ríkisútvarpinu. Þann 6. október hafi verið sendur póstur þess efnis á umsjónaraðila kosningasjónvarps RÚV.

Í póstinum sagði að mikil vinna væri í gangi við að undirbúa málefnaskrá flokksins og framboðslista og að í ljósi þess að framboðsfrestur rynni ekki út fyrr en 13. október sæi flokkurinn sér því miður ekki fært að taka þátt í umræðuþáttum í sjónvarpi þá daga sem um var að ræða.

„Miðflokkurinn þakkar kærlega fyrir boð um þátttöku, en telur ekki ábyrgt að fulltrúar flokksins taki þátt í sjónvarpsumræðum um málefni og áherslur í kjördæmum fyrr en áherslur framboðsins ásamt framboðslistum hafa verið kynntar opinberlega af flokknum. Vonumst við til að geta mætt í upptökur á þáttunum síðar þar sem þættirnir verða ekki sýndir fyrr en eftir að framboðsfrestir renna út,“ sagði meðal annars í bréfi Miðflokksins til umsjónaraðila kosningasjónvarpsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert