Lítil þolinmæði fyrir annarri „hringekju“

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Framsóknarflokksins verði mynduð.

„Ég held að Katrín [Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna] hefði ekki óskað eftir og svo þegið stjórnmyndunarumboðið ef hún hefði ekki haft þetta á borðinu,” sagði Páll í þættinum Vikulokin á Rás 1.

Flokkarnir hittast í annað sinn í dag eftir að hafa rætt saman heima hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins í gær.

Páll sagði að í ljósi síðustu stjórnarmyndunarviðræðna í fyrra sé hann viss um að lítil þolinmæði sé í samfélaginu fyrir þannig „hringekju” aftur.

Hann bætti við pólitíkin sjálf væri mesti vandinn á Íslandi, „tætingurinn” og „óstöðugleikinn” sem þar sé, en ekki efnahagsmálin.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ljósmynd/Karl Eskil Pálsson

Jákvætt ef konur verða í meirihluta 

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, nýr þingmaður Samfylkingarinnar, var einnig gestur þáttarins. Hún sagðist vera bjartsýn á að viðræðurnar um stjórnarmyndum myndu ganga upp enda væru flokkarnir sammála um mörg mikilvæg málefni. Nefndi hún heilbrigðismál og uppbyggingu innviða þar á meðal.

Ólafur Þór Gunnarsson.
Ólafur Þór Gunnarsson.

Ólafur Þór Gunnarsson úr Vinstri grænum kvaðst hóflega bjartsýnn á að samkomulag myndi nást. Hann vakti máls á umræðunni um að ríkisstjórn verði að hafa ríflegan meirihluta til að geta stjórnað en sagðist ekki viss um að niðurstöður kosninganna hafi sýnt það. Frekar hafi hún sýnt að mismunandi flokkar eigi að reyna að vinna saman. „Það er ákall í samfélaginu um að margir fái að koma að borðinu.”

Síðar sagðist hann telja að næsta ríkisstjórn verði að meirihluta skipuð konum.  „Ég held að það verði mjög jákvætt fyrir þjóðina. Ég held að það verði skemmtileg tilbreyting.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert