„Enginn búinn að skella hurðum“

Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höldum bara áfram á morgun,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, þegar hann er spurður um ganginn í stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Sigurður Ingi og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sögðu bæði að fundir dagsins hefðu verið góðir.

Formenn flokkanna funduðu í dag með fulltrúum Landsambands eldri borgara og Öryrkjabandalagsins, auk þess sem þeir ræddu við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans. 

„Við höldum bara áfram á morgun og við hvern dag sem við vinnum þá styttist í endann. Ég get ekki alveg tímasett það alveg í augnablikinu, við sjáum til,“ segir Sigurður Ingi og hlær þegar hann er spurður að því hvort flokkarnir taki eitt skref í einu.

„Við erum að ræða mörg stærri mál eins og skattamál, umhverfismál, loftslagsmál, jafnréttismál og fleira,“ segir Sigurður en hann telur að það sé ekki skynsamlegt að segja til um hvenær verkinu ljúki. 

Hann segir að skiptingu ráðuneyti hafi borið á góma þó að flokkarnir hafi ekki legið yfir skiptingunni. „Við höfum satt best að segja fyrst og fremst einbeitt okkur að málefnasamningi.“

Ágætis gangur í þessu

Katrín sagði að yfirleitt væri það þannig að þau mál sem bæri á milli leystust öll í einu samtali. „Við erum ekki búin að lenda öllum málum en það er ágætis gangur í þessu og ég er bjartsýn á að þetta geti klárast.

Katrín hlær þegar spurningin um hvenær verkinu ljúki er borin upp. „Þetta er sígild spurning. Það er ekki komin nákvæm tímasetning á það og það eru einhverjir dagar eftir. Það er vinna eftir og ekki tímabært að segja til um hvenær þetta ætti að geta gengið eftir. Það er enginn búinn að skella hurðum,“ segir Katrín en formenn flokkanna hittast aftur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert