Hálstöflur kostuðu ökuskirteinið

Hálstöflurnar Fisherman's Friends eru svo sannarlega ekki bestu vinir norska bílstjóra. Töflurnar gefa nefnilega jákvæða niðurstöðu í blástursprófum sem ætlað er að mæla alkóhólmagn í blóði bílstjóra. Frá þessu er greint í danska dagblaðinu Politiken.

Norskur leigubílstjóri í Tromsö hefur nú í tvígang misst ökuskírteini sitt í kjölfar þess að hafa tugguð fyrrnefndar hálstöflur. Þar sem blásturmælingin reyndist jákvæð í bæði skipti svipti lögreglan hann ökuskírteinið á staðnum. Í báðum tilfellum fór bílstjórinn í kjölfarið í blóðprufur hjá lækni sem staðfestu að bílstjórinn var í reynd ekki með neitt alkóhól í blóðinu. 

Leigubílstjórinn fékk nýlega ökuskírteini sitt afhent á ný eftir að hafa verið sviptur í þrjár vikur vegna þessa misskilnings. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að blásturmælar mæla fleira heldur en bara alkóhól, en meðal þess sem þeir mæla eru  efnasamsetningar sem minna ásameindir þær sem eru í áfengi. 

„Það er vel þekkt að ef þú ert með eitthvað upp í þér sem lyktar, þá getur það haft áhrif á alkóhólblásturmælana. Fisherman's Friend inniheldur m.a. menthol, piparmyntu og cayennepipar, sem er meðal þeirra efna sem haft geta áhrif á mælana,“  segir Merete Vevelstad, yfirlæknir á Lýðheilsustöð.

Talsmenn Fisherman's Friend í Noregi þekktu ekkert til málsins þegar blaðamaður Politiken leitaði til þeirra og kusu því ekki að tjá sig að svo stöddu.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert