Vestræn ríki vöruð við hættunni á sýkla- og efnahernaði

Talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir að flestir vanmeti hættuna á sýkla- og …
Talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir að flestir vanmeti hættuna á sýkla- og efnahernaði. Maðurinn á myndinni er í hlífðargalla og heldur á mótefni við taugagasi. Myndin var tekin í ágúst 1990. AP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur varað ríkisstjórnir vestrænna ríkja við hugsanlegum sýkla- eða efnahernaði. David Nabarro, næstæðsti yfirmaður stofnunarinnar, segir að nauðsynlegt sé að vanmeta ekki þá ógn sem vestrænum þjóðum stafar af fjöldaárásum. Þá sagði hann að WHO væri að reyna að tryggja að ríkisstjórnir byggju yfir nýjustu upplýsingum um þau efni og þá sýkla sem kynnu að verða notuð í árás og hvernig hægt væri að berjast gegn fjöldasmiti.

„Það gæti verið miltisbrandur eða bótúlíneitrun, eitranir sem verða af völdum baktería og valda lömun, eða kannski bólusótt," sagði Nabarro í samtali við breska ríkisútvarpið BBC. „Þó svo að við séum að sjá fyrir okkur ógnvekjandi kringumstæður, þá er sitthvað sem bendir til þess að bólusótt yrði beitt. Það eru þess konar sýklahernaður sem við erum að tala um." Þegar hann var spurður hversu vel að vígi Bretar stæðu sagði hann: „Hreinskilið svar er, ég veit það ekki," og bætti við: „Það sem ég er nokkuð viss um er að það er fólk í Bretlandi sem er að skoða þessi mál grannt núna og ég býst við því að undirbúningur er kominn á lengra stig en flestir gera sér grein fyrir." Bresk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í síðustu viku að verið væri að endurskoða viðbragðsáætlanir vegna sýklahernaðar. Jafnframt sögðu þau að hætta á sýkla- eða efnahernaði væri lítil. Áætlunin sem á að endurskoða var unnin eftir sarin-gasárás í neðanjarðarlestakerfi Tókýó í Japan árið 1995. Nabarro sagðist ekki vita hversu auðvelt það yrði að gera víðtæka árás á vestræna þjóð. „Vegna þess að við vitum ekki nógu mikið um það hvað þarf til að þessi efni valdi skaða biðjum við fólk að taka mark á þessari áhættu og viðurkenna að slíkur hernaður gæti reynst mun auðveldari í framkvæmd en hefðbundin vopn hryðjuverkamanna," sagði hann í samtali við BBC. „Við þessar kringumstæður væri óviturlegt að hugsa ekki alla vega málið og undirbúa viðbrögðin eins vel og unnt er." Ógn frá tilraunastofunni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert