Handalögmál á rússneska þinginu

AP

Til handalögmála kom á rússneska þinginu í dag þegar öfgahægriþingmaðurinn Vladimír Zhírínovskí (í miðju) fór í slag við þingmann í öðrum flokki vegna óánægju sinnar með yfirburðastöðu fylgismanna ríkisstjórnarinnar.

Ringulreið ríkti í þingsölum og í beinni sjónvarpsútsendingu mátti sjá Zhírínovskí, sem er leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins og varaforseti þingsins, skyrpa á þingmann Rodina-flokksins.

Sá þingmaður, Andrei Savjolov, og Zhírínovskí stukku þá á hvorn annan með hnefana á lofti, og fleiri þingmenn bættust í slaginn. Zhírínovskí greip í hárið á andstæðingi sínum en var þá hafður undir og laminn hvað eftir annað.

Forseti þingsins sagði að réttast væri að ríkissaksóknari rannsakaði hver átt hefði upptökin að slagsmálunum, en Rodina-flokkurinn hefur krafist þess að Zhírínovskí verði sviptur embætti varaforseta þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert