Ríkislögreglustjórinn leggur hald á falsaða milljóndollaraseðla

Einn hinna fölsuðu milljóndollaraseðla.
Einn hinna fölsuðu milljóndollaraseðla.

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans hefur lagt hald á sjötíu milljóndollaraseðla í framhaldi af tilkynningu frá íslenskum fjármálastofnunum um að erlendir aðilar væru að bjóða slíka seðla sem tryggingu fyrir lánum sem þeir óskuðu eftir að taka hjá íslenskum bönkum og fjármálastofnunum. Segir Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóraembættinu, að málið sé allt með ólíkindum.

Seðlarnir eru falsaðir en Arnar segir að á þeim sé áletrunin „silver certificate“ og árið 1928 hafi verið gefnir út í Bandaríkjunum 100.000 dollara seðlar með þessari áletrun þannig að það geti reynst erfitt að átta sig á því í fljótu bragði hvort seðlarnir séu falsaðir eða ekki. En bandaríski seðlabankinn hafi aldrei gefið út slíka 1.000.000 dollara seðla.

Arnar segir að ekki sé unnt að greina frá því hvar hald hafi verið lagt á seðlana en það hafi verið gert í samvinnu við íslenskar bankastofnanir. Málið hafi þó ekki verið gengið svo langt að þessari stofnanir hafi tekið við seðlunum tryggingu fyrir lánum. Efnahagsbrotadeildin hafi sent beiðni til breskra lögregluyfirvalda um að „nálgast þann aðila sem er grunaður um þessar tilraunir til fjársvika“

Vitað sé að samskonar tilraunir hafi verið gerðar í Austurríki, Ítalíu, Bretlandi og Þýskalandi. „Við vitum hver að minnsta kosti einn af þessum aðilum er, en það eru allar líkur á að það séu fleiri sem standa að þessu,“ segir Arnar.

Hann telur að faglega hafi verið staðið að þessum fjársvikatilraunum. Leggja hafi átt seðlana fram sem handveð, fá lán hjá íslenskum fjármálstofnunum og fjárfesta í gegnum þær í verðbréfum eða öðrum fjárfestingum. Samkvæmt lögum um peningaþvætti beri íslenskum fjármálastofnunum að tilkynna Efnahagsbrotadeildinni um grunsamleg viðskipti sem kynnu að tengjast peningaþvætti. Slík tilkynning hefði borist deildinni í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert