Skilorðsbundinn dómur fyrir kynferðisbrot gegn annarri konu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu í hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn annarri konu. Konan var talin hafa notfært sér að hin konan gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Konan var einnig dæmd til að greiða hinni konunni 300 þúsund krónur í miskabætur en fram kemur í dómnum, að sú sem brotið var á átti við andlega erfiðleika að stríða í kjölfarið.

Brotið var framið í sumarbústað í júlí á síðasta ári. Fram kemur í dómnum, að það teljist sannað, að konan hafi viðhaft kynferðislegt athæfi gagnvart hinni konunni þar sem hún lá sofandi ölvunarsvefni. 

Við ákvörðun refsingar tók fjölskipaður héraðsdómur  tillit til þess, að konan var með hreint sakarvottorð, hún er einstæð móðir með tvö ung börn á framfæri og var um nokkurt skeið óvinnufær vegna slyss er hún hafi orðið fyrir sem unglingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert