„Á að hjálpa Íslandi"

Reuters

Norðmenn misstu yfirráð Íslandi sem þeir höfðu í gegnum Kalmarsambandið á fjórtándu öld. Nú vilja andstæðingar Evrópusambandsins að við kaupum eyjuna aftur til baka til þess að koma í veg fyrir að Ísland sæki um Evrópusambandsaðild. Þetta kemur fram í ritstjórnargrein Dagens Næringsliv í dag undir fyrirsögninni „Á að hjálpa Íslandi".

Er í ritstjórnargreininni vísað til orða Heming Olaussen, leiðtoga andstæðinga ESB í Noregi sem segir að breið samstaða sé um að lána Íslendingum háar fjárhæðir til þess að draga úr skuldum íslenska ríkisins og að kaupa til baka réttindin yfir fiskiskipaflotanum. 

Þar kemur fram að Liv Signe Navarsete, samgönguráðherra Noregs, sé á sama máli og hún segi að ekki skuli þvinga neitt ríki til inngöngu í ESB og til að taka upp evru vegna efnahagserfiðleika. 

Segir í greininni að ekki sé ljóst hvort Navarsete sé einungis reiðubúin til að veita Íslendingum hjálpandi hönd eða hvort hún vilji þurrausa olíusjóðinn, eða hækka skatta í Noregi til þess að koma Króatíu, Serbíu, Úkraínu og Tyrklandi til bjargar frá inngöngu í ESB. 

Í ritstjórnargrein DN kemur fram að ástæða sé til að aðstoða Ísland, eitthvað sem Noregur hafi þegar gert ásamt hinum norrænu ríkjunum. Það sé jafnvel spurning um hvort veita eigi Íslendingum frekari stuðning. Hins vegar sé engin ástæða til þess að eyða háum fjárhæðum í að hafa áhrif á íslensk stjórnmál.  Ritstjórnargrein Dagens Næringsliv

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert