Hjálparstarf kirkjunnar safnar fyrir Haíti

Björgunar- og hjálparstarf fer fram við erfiðar aðstæður í Port-au-Prince.
Björgunar- og hjálparstarf fer fram við erfiðar aðstæður í Port-au-Prince. REUTERS TV

Hjálparstarf kirkjunnar hefur sett af stað söfnun fyrir Haíti. Söfnunarsími Hjálparstarfsins er 907 2003 en hvert símtal gefur 2.500 krónur í söfnunina, að því er segir í tilkynningu.

„Starfsfólk ACT,  Alþjóðaneyðarhjálpar kirkna, á Haítí tók til við hjálparstarf um leið og jarðskjálftinn þar hafði riðið yfir. Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT.

Í höfuðstöðvum í Genf er verið að undirbúa för sérfræðinga í stjórnun, áfallahjálp,  vatns- og hreinlætismálum, miðlun upplýsinga og fjármálum.  Verið er að taka saman neyðargögn til sendingar.  Samhliða er matshópur ACT á staðnum að meta aðstæður og þörf fyrir hjálp. Neyðarstarf ACT-aðila á Haítí er í fullum gangi þrátt fyrir að ACT-starfsfólks á staðnum sé saknað, skrifstofur sumra ACT-aðila ónýtar eða mikið skemmdar og starfsfólk í leit að eigin fjölskyldum," að því er segir í tilkynningu.

„Einn starfsmanna okkar fannst á lífi en er slasaður. Við söknum enn tveggja" segir Dick Loendersloot frá ACT-aðilanum ICCO sem starfar á Haítí.

Nigel Timmins frá ACT / Christian Aid segir um sitt innlenda starfsfólk að það viti ekki enn hvort þeirra nánustu séu á lífi. Skrifstofur ACT / Christian Aid eru ónýtar en starfsfólkið er á fullu í hjálparstarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert