Keyrt á hross á Suðurlandsvegi

mbl.is/Júlíus

Um helgina hljóp hross í veg fyrir vörubifreið á Suðurlandsvegi í Flóa. Hrossið drapst. Stuttu áður hafði lögreglu verið tilkynnt um laus hross við veginn og var verið að gera ráðstafanir til að smala hrossunum og koma þeim inn fyrir girðingu þegar óhappið átti sér stað, samkvæmt dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Umráðamaður ökutækis var kærður fyrir að vera með litaða olíu á bifreið sinni. Mál hans verður sent til ákæruvalds til frekari meðferðar, að því er segir í dagbók Selfosslögreglunnar.

Tvær bílveltur urðu með klukkustundar bili síðastliðið föstudagskvöld. Fyrra óhappið varð á Biskupstungnavegi við Þrastarlund þar sem jepplingur með fimm manns innanborðs valt á toppinn. Hitt tilvikið átti sér stað við Litlu kaffistofuna þar sem stór jeppabifreið valt þrjár til fjórar veltur. Ökumaður var einn í þeirri bifreið. Í hvorugu tilvikanna var um alvarleg meiðsl á fólki enda allir í bílbeltum.

Óhöppin má rekja til mikillar ísingar og krapa sem var á vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert