Innilokuð í Fljótshlíð

Anna Runólfsdóttir bóndi í Fljótsdal.
Anna Runólfsdóttir bóndi í Fljótsdal. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég var að hleypa kindunum út úr fjárhúsunum því það gæti komið vatn inn í þau. Vegurinn er í sundur þannig að við komust ekki burt,“ segir Anna Runólfsdóttir, bóndi í Fljótsdal, sem er innsti bær í Fljótshlíð.

Anna segist ekki hafa áhyggjur af sjálfri sér eða börnum sínum. Bærinn stendur ofar í hlíðinni og hún telur enga hættu á að flóðið nái í bæinn.

„Ég heyrði drunur. Það var eins og flugvél væri að lenda. Gígjökull er allur svartur vegna þess að flóðið hefur komið yfir jökulinn en ekki undan honum,“ segir Anna.

Sauðburður er byrjaður hjá Önnu í Fljótsdal. Hún hleypti öllum kindum út úr fjárhúsinu sem hún treysti til að vera úti. Fjárhúsin standa neðar í hlíðinni og Anna sagðist óttast að vatn flæddi inn í fjárhúsin.

Flóðið er núna á leið niður Markarfljót. Það er ekki komið að nýju Markarfljótsbrú, en það gerist á næstu mínútum. Verið er að rjúfa skörð í veginn sem vegagerðarmenn unnu við að fylla í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert