Enn mikil virkni í jöklinum

Við Núpakot nú í morgun.
Við Núpakot nú í morgun. mbl.is/Kristinn

Bláleit móða eða gas hefur sést stíga upp til himins yfir Gígjökli, en talið er líklegt að þetta komi frá rennandi hrauninu. Gufubólstrar stíga einnig upp, en í gær virtust þeir minni en í fyrradag. Hæstu gosbólstrar náðu í gær um 5,8 til 6 km hæð við Eyjafjallajökul.

Minnt er á að hætta stafar af gasi við Gígjökul.

Að sögn almannavarna hefur verið töluverð ásökn undanfarið að komast inn á lokuð hættusvæði í grennd við gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli. Tekið er fram að þó að um mikið sjónarspil sé að ræða þá sé áréttað að svæðið geti verið mjög hættulegt og lokanir séu enn í gildi samanber kort frá 27. apríl sl. 

Ekki sé vitað með vissu hvaða áhrif umbrotin hafi haft á jökulinn sjálfan. Sprungur geti hafa myndast og vitað sé um a.m.k. eina vatnsrás, um 50 metra djúpa á sunnanverðum jöklinum.

Á ratsjármyndum frá Landhelgisgæslunni, sem voru teknar í gær, sjást stækkandi rásir í Gígjökli og áframhaldandi upphleðslu á gíg. Stærð gígops er 280 metrar x 190 metrar. Sjónarvottur í Fljótshlíð sá í gær hraunslettur þeytast upp, líklega nokkur hundruð metra, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

Virkni er enn mikil, gjóskuframleiðsla og sprengivirkni hefur aukist undanfarna daga en er þó miklu minni en upphafsdaga goss. Órói hefur dottið niður en ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka.

Nú líður senn að því að jökulhaftið milli gígsins á toppi fjallsins og Gígjökuls bresti. Við það munu eitraðar lofttegundir s.s. koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) eiga greiðari leið niður Gígjökul og út á eyrarnar framanvið jökulinn.

Í eldgosum sem þessu kemur fyrir að gusthlaup fara niður farvegi eins og Gígjökul, þetta er þó ekki algengt. Gusthlaup verða þegar blanda af gasi og fínkorna bergryki mynda lága bólstra yfir gjósandi gígum eða þegar aska hrynur úr ofhlöðnum gosmekki. Gusthlaup fara undan halla og fara hratt yfir svo ástæða er til að forðast hugsanlega farvegi þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert