Grímur Atlason ráðinn bæjarstjóri í Bolungarvík

Grímur Atlason.
Grímur Atlason.

Grímur Atlason hefur verið ráðinn bæjarstjóri í Bolungarvík. Grímur er þroskaþjálfi að mennt og starfaði lengi sem slíkur bæði á Íslandi og í Danmörku. Síðustu sex ár hefur hann rekið umboðsstofu tónlistarmanna undir heitinu Austur-Þýskaland. Auk þessa hefur Grímur starfað fyrir Vinstrihreyfinguna-grænt framboð í borgarmálapólitíkinni undanfarin ár og setið í nefndum fyrir flokkinn.

Grímur segir við fréttavefinn bb.is, að starfið leggist mjög vel í sig og hann hlakki til að koma vestur. „Þó svo að þetta starf sé innan bæjarkerfisins þá er það ekki pólitískt, en vissulega er ég ráðinn af nýjum meirihluta en ég lít ekki svo á að ég sé fulltrúi neins flokks í starfinu.“ Grímur á ættir sínar að rekja til Vestfjarða og þá sér í lagi Súðavíkur en afi hans, Grímur Jónsson var einn af stofnendum Frosta.

„Ég lærði að fljúga og í fluginu er sagt að þegar þú ert ekki með smá fiðring þegar þú ert í loftinu og ert á tánum þá endar það með ósköpum, það sama má segja með mig núna. Ég er að yfirgefa það sem ég hef verið að gera undanfarin ár og þekki mjög vel og ætla að demba mér í eitthvað allt annað þó svo að það liggi inni á mínum áhugasviðum.“ Að sögn Gríms er hann ekki hinn dæmigerði kerfiskarl enda vilji hann sjá breytingar á íslensku samfélagi.

Grímur er kvæntur Helgu Völu Helgadóttur og eiga þau fjögur börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert