Engin óeðlileg fjölgun á kjörskrá í Hafnarfirði

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn

Hafnarfjarðarbær segir í tilkynningu, að íbúafjölgun í bæjarfélaginu fram til 10. mars, þegar kjörskrá vegna íbúakosninga um álverið í Straumsvík var lokað, hafi verið með eðlilegum hætti og í takt við það sem hafi verið mánuði á undan. Þá segir að starfsmenn þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar hafi fylgst vel með skráningum á lögheimili síðustu vikur fyrir lokun kjörskrár og hafi ekki orðið varir við neitt óeðlilegt.

Í gær var greint frá því að samtökin Hagur Hafnarfjarðar hafi um það rökstuddan grun að um 700 manns hafi flutt lögheimili sitt til bæjarins eingöngu til að kjósa gegn stækkun álversins.

Engar formlegar kröfur um endurtalningu atkvæða hafa komið á borð bæjaryfirvalda að sögn Lúðvíks Geirssonar, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, enda hafi engin vafaatriði komið upp. Hann sagði jafnframt í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að frá því í lok janúar þegar ákveðið var að ganga til kosninga um málið hafi bæjaryfirvöld fylgst sérstaklega með því hvort óeðlileg fjölgun íbúa hafi átt sér stað.

Fréttatilkynningin er eftirfarandi:

    Vegna frétta í gær og í dag um að Hagur Hafnarfjarðar teldi að mögulega hefði verið um óeðlilega fjölgun á kjörskrá Hafnarfjarðar að ræða í aðdraganda íbúakosninganna vill Hafnarfjarðarbær koma eftirfarandi á framfæri:

    Íbúafjölgun í Hafnarfirði undanfarin ár hefur verið mjög mikil og á árinu 2006 var íbúafjölgun meiri en áður hefur þekkst og höfum við reiknað með umtalsverðri fjölgun íbúa áfram á árinu 2007. Þann 1. desember 2005 voru íbúar bæjarins 22.451 en á sama tíma 2006 voru bæjarbúar orðnir 23.674. Af stærri sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu var fjölgunin mest í Hafnarfirði eða um 5,4%. Í desember 2006 var íbúatalan komin upp í 23.732 og þegar bæjarstjórn ákvað að efna til íbúakosningar þann 31. janúar 2007 var íbúatalan 23.824.

    Á kjörskrá 10. mars 2007 voru 16.647, hafði fjölgað um 676 frá því kosningunum í maí 2006, en þá voru á kjörskrá 15.971 og er það í takt við íbúaþróun í bænum.

    Eftir að kjörskrá var lokað, 10. mars, hefur bæjarbúum fjölgað mikið og eru í dag, 2. apríl 24.111.

    Starfsmenn þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar fylgdust vel með skráningum á lögheimili síðustu vikur fyrir lokun kjörskrár og urðu ekki varir við neitt óeðlilegt.

    Íbúafjölgun fram til 10. mars, þegar kjörskrá var lokað, var með eðlilegum hætti og í takt við það sem hefur verið mánuðina á undan. Hafnarfjarðarbær fékk daglega upplýsingar og uppfærslur frá Þjóðskrá. Í morgun var óskað eftir yfirliti frá Þjóðskrá um fólksflutninga til og frá Hafnarfirði frá 1. apríl 2006 til 31. mars 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert