Eriksson hissa á breytingunum

Sven Göran Eriksson er að gera góða hluti hjá Manchester …
Sven Göran Eriksson er að gera góða hluti hjá Manchester City. Reuters

Sven Göran Eriksson knattspyrnustjóri Manchester City segir að það hafi komið sér óvart hversu mörg lið í ensku úrvalsdeildinni hafi skipt um knattspyrnustjóra á tímabilinu en sex félög af 20 hafa skipt um mann í brúnni.

Svíinn sem hefur mikla reynslu sem þjálfari segir að fótboltinn á Englandi sé farin að líkjast mjög því sem átt hefur sér stað á Ítalíu og í Portúgal.

„Ég er hissa á því sem er að gerast á Englandi. Ég hélt alltaf að stjórnendur félaganna og stuðningsmenn þeirra hefðu meiri þolinmæði en þeir sem eru á Ítalíu og Portúgal þar sem ég hef starfað lengi. Ég er ekkert að tala um eitthvað sérstakt félag, en þú veist að þegar hlutirnir ganga illa þá er erfitt að reka formanninn, mjög erfitt að reka leikmennina svo hver er þriðji þátturinn? Það er knattspyrnustjórinn“, segir Eriksson á vef Manchester City.

Eriksson ætti að vera í öruggu starfi ef miðið er tekið af árangri hans með liði Manchester City. Liðið hefur aldrei byrjað betur í efstu deild en City er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar, er stigi á eftir grönnum sínum í Manchester United og fjórum á eftir Arsenal sem er efst í deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert