Haukar skelltu HK á Ásvöllum

Ásgeir Þór Ingólfsson skorar annað mark Hauka.
Ásgeir Þór Ingólfsson skorar annað mark Hauka. mbl.is/Kristinn

Haukar sigruðu HK, 4:1, í síðasta leik kvöldsins í 1. deild karla í knattspyrnu og þar með náði HK ekki að halda í við Skagamenn og Þróttara sem unnu sína leiki í kvöld.

Leiknir R. er með 27 stig, ÍA 24, Þróttur 24, HK 21 og KA 20 í efstu sætum deildarinnar eftir leiki kvöldsins. Víkingur Ó. er með 19 stig og mætir Selfossi annað kvöld.

Haukar komust með sigrinum í 17 stig, fjórum stigum frá fallsæti en þar sitja Grindvíkingar með 13 stig eftir ósigur á Akranesi í kvöld.

Hilmar Geir Eiðsson kom Haukum yfir á 43. mínútu en áður hafði HK verið nær því að skora og Viktor Unnar Illugason átti m.a. skot í þverslá Haukamarksins. Staðan var 1:0 í hálfleik.

Ásgeir Þór Ingólfsson og Brynjar Benediktsson komu Haukum í 3:0 á upphafsmínútum síðari hálfleiks en Andri Geir Alexandersson minnkaði muninn fyrir HK í 3:1 á 62. mínútu.

Andri Steinn Birgisson hjá Haukum var rekinn af velli á 79. mínútu og HK-ingar virtust ætla að nýta sér liðsmuninn strax því þeir fengu vítaspyrnu skömmu síðar. Sigmar Ingi Sigurðarson í marki Hauka  varði hinsvega skot Guðmundar Atla Steinþórssonar.

Viktor Unnar átti síðan skot í stöng Haukamarksins en í stað þess að HK minnkaði muninn skoraði Andri Gíslason fjórða mark Hauka í uppbótartíma, gegn fáliðaðri vörn Kópavogsliðsins.

Brynjar Benediktsson skoraði fyrir Hauka og sækir hér að marki …
Brynjar Benediktsson skoraði fyrir Hauka og sækir hér að marki HK: mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert