Kristinn á að koma Fram upp

Sverrir Einarsson, formaður stjórnar knattspyrnudeildar Fram, og Kristinn R. Jónsson …
Sverrir Einarsson, formaður stjórnar knattspyrnudeildar Fram, og Kristinn R. Jónsson handsala samninginn. Ljósmynd/Fram

„Nafn Kristins kom fljótt upp í umræðunni. Við fórum yfir sviðið og þarna kom upp maður sem hefur þjálfað í 20 ár, er hokinn af reynslu og okkur fannst upplagt að fá rótgróinn Framara í þetta,“ sagði Sverrir Einarsson, formaður stjórnar knattspyrnudeildar Fram, sem í gær réð Kristin R. Jónsson sem þjálfara meistaraflokks karla.

Kristinn tekur við starfinu af Bjarna Guðjónssyni sem hætti eftir að hafa stýrt Fram í eitt ár og fallið með liðinu niður í 1. deild í haust. Það ætti að koma í ljós síðar í vikunni hver verður Kristni til aðstoðar.

Kristinn hefur síðustu sjö ár verið þjálfari U19-landsliðs karla en hann stýrði Fram í efstu deild árin 2001 og 2002, en var svo rekinn snemma sumars 2003. Áður þjálfaði hann ÍBV í eitt ár árið 2000, og hafði enn áður verið aðstoðarmaður Bjarna Jóhannssonar hjá ÍBV og Ásgeirs Elíassonar hjá Fram. Kristinn er einn leikjahæsti leikmaður í sögu Fram með yfir 320 leiki í meistaraflokki fyrir félagið.

„Hann þekkir alla innviði félagsins og við erum að fá upp fullt af góðum flokkum sem við viljum samtengja meistaraflokknum. Kiddi er kjörinn í að leiða þetta,“ sagði Sverrir, sem segir stefnuna að fara rakleitt upp í Pepsi-deildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert