Ánægður með vinnuframlagið

Eiríkur Ingi Magnússon, Ólafur Jóhannesson, Sigurbjörn Hreiðarsson (sitjandi)
Eiríkur Ingi Magnússon, Ólafur Jóhannesson, Sigurbjörn Hreiðarsson (sitjandi) mbl.is / Árni Sæberg

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, var kampakátur með sigur liðsins á FH í þriðju umferð Pepsi deildar karla á Vodafone-vellinum í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 2:0 fyrir Val og það var Sigurður Egill Lárusson sem skoraði bæði mörk Vals í leiknum. 

„Ég er ótrúlega ánægður með frammistöðuna hjá liðinu í leiknum í kvöld. Heildarframmistaðan var frábær hér í kvöld. Við gerðum nákvæmlega það sem við ætluðum að gera. Vinnuframlag liðsins var til fyrirmyndar og menn hlupu fyrir hvorn annan. Þegar við unnum svo boltann þá þorðum við halda boltanum og spila honum á milli okkar. Við sköpuðum aragrúa af færum og hefðum getað skorað fleiri mörk í leiknum.“

„Við ætluðum að fara hugrakkir inn í þennan leik og vera hugaðir þegar við værum með boltann. Það fannst mér vera uppi á teningnum í kvöld og við erum gríðarlega ánægðir með það. Það er líka ánægjuefni halda markinu hreinu á móti frábæru FH liði. Það er gríðarlega sterkt að halda markinu hreinu og það er hægt að byggja á því í næstu leikjum. Við erum ótrúlega ánægðir með að leggja eins sterkt lið og FH er að velli hér í kvöld.“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert