Breiðablik er meistari meistaranna

Lið Breiðabliks með bikarinn eftir sigurinn í kvöld.
Lið Breiðabliks með bikarinn eftir sigurinn í kvöld. mbl.is/Golli

Íslandsmeistarar Breiðabliks eru „meistarar meistaranna“ eftir sigur á bikarmeisturum Stjörnunnar í árlegum leik milli Íslands- og bikarmeistara síðustu leiktíðar. Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma en Breiðablik hafði betur í vítaspyrnukeppni, 4:3.

Leikurinn fór fram á Samsung-vellinum í Garðabæ við fremur erfiðar aðstæður. Strekkingsvindur og kuldi gerði leikmönnum erfitt fyrir og fremur fá færi litu dagsins ljós.

Breiðablik skoraði úr fjórum spyrnum í vítaspyrnukeppni og það var markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir sem gulltryggði sigurinn með því að verja spyrnu frá Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur,fyrirliða Stjörnunnar.

Ekki er hægt að dæma liðin mikið af þessum leik en þó er ljóst að þarna fara tvö lið sem munu berjast um titla í sumar.

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skorar ekki úr víti! Sonný Lára ver aftur glæsilega og tryggir Breiðablik sigurinn!  Lokastaða 4:3 eftir vítaspyrnukeppni.

Ingibjörg Sigurðardóttir SKORAR. 4:3 fyrir Breiðablik

Katrín Ásbjörnsdóttir SKORAR. 3:3

Svava Rós Guðmundsdóttir SKORAR. 3:2 fyrir Breiðablik

Donna Kay Henry SKORAR. 2:2

Andrea Rán skorar ekki úr víti! boltinn smellur í stönginni. 2:1 fyrir Breiðablik

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir SKORAR. 2:1 fyrir Breiðablik

Hallbera Guðný Gísladóttir SKORAR. 2:0 fyrir Breiðablik

Harpa Þorsteinsdóttir skorar ekki úr víti! Sonný Lára ver glæsilega. 1:0 fyrir Breiðablik

Fanndís Friðriksdóttir SKORAR. 1:0 fyrir Breiðablik

Leik lokið. Við erum að fá vítaspyrnukeppni gott fólk!

90. mín. Esther Rós kemst í gegn en Berglind sér við henni. Berglind hefur verið öryggið uppmálað hér í kvöld. Það er rétt að geta þess að leikurinn fer beint í vítakeppni ef jafnt verður í leikslok.

83. mín. Hallbera með frábæra sendingu frá vinstri kanti sem ratar beint á höfuðið á Andreu Rán. Efnilegasti leikmaður deildarinnar skallar boltann hins vegar naumlega framhjá en þetta var frábært færi!

79. mín. Gott skot Fanndísar fyrir utan teig en Berglind Hrund ver þetta með tilþrifum! Virkilega vel gert hjá þessum unga markverði, sem er komin í stórt hlutverk í liði Stjörnunnar.

77.mín. Skipting, Breiðablik. Rakel Hönnudóttir fer af velli og Esther Rós Arnarsdóttir kemur inn á í hennar stað.

73. mín. Bæði lið skipta. Fjolla Shala kemur inn fyrir Selmu Sól Magnúsdóttur í liði Breiðabliks og Guðrún Karítas Sigurðardóttir kemur inn á í liði Stjörnunnar fyrir Öglu Maríu Albertsdóttur.

71. mín. Stjarnan örlítið sterkari þessa stundina en það vantar mörkin hér!

60. mín. Fanndís með gott langskot og notar vindinn vel. Skotið svífur yfir markið en þetta var alls ekki galin hugmynd hjá markahæsta leikmanni deildarinnar í fyrra.

55. mín. Hornspyrna Stjörnunnar frá vinstri endar hjá Kolbrúnu Tinnu en miðvörðurinn hávaxni mokar boltanum yfir markið. Fínt færi!

54. mín. Svava Rós Guðmundsdóttir með flottan sprett upp hægri kantinn og sending hennar gerir mikinn usla í vörn Stjörnunnar. Framherjar Blika voru einfaldlega ekki nægilega vel á tánum til að gera sér mat úr þessu.

48. mín. Gott langskot Rakelar sem stefnir efst í markhornið en fer hárfínt framhjá. Skotið hafði viðkomu í varnarmanni og Breiðablik fær hornspyrnu sem ekkert verður úr.

46. mín. Seinni hálfleikur er hafinn og nú eru það Blikar sem leika undan sterkum vindi.

Hálfleikur. Jafnræði með liðunum en við bíðum ennþá eftir fyrsta markinu í erfiðum aðstæðum í Garðabæ. Blikar hafa virkað örlítið líklegri en Stjarnan hefur einnig átt sína spretti.

45. mín. Dauðafæri! Rakel Hönnudóttir braust upp vinstri kantinn og sendi boltann inn á teiginn. Þar fékk Fanndís Friðriksdóttir gott skotfæri en boltinn skaust eins og borðtenniskúla á milli varnarmanna og lak síðan framhjá markinu. Klárlega besta færi leiksins.

39. mín. Stjarnan mjög nálægt því að skora fyrsta mark leiksins. Þórdís tók hornspyrnu og sendi boltann með jörðinni. Þar kom Donna á ferðinni og skaut að marki en boltinn fór í varnarmann og naumlega framhjá.

36. mín. Baráttan heldur áfram en flestar aðgerðir hér á Samsung-vellinum eru afskaplega ómarkvissar. Markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir hefur í tvígang verið á „línunni“ að sleppa í gegnum vörnina en það hefur ekki gengið hingað til.

28. mín. Fanndís brýst upp vinstri kantinn og sendir góða sendingu fyrir markið með vinstri. Varnarmaður Stjörnunnar setur tá í boltann og er hársbreidd frá því að skora sjálfsmark en gefur hornspyrnu. Þarna munaði litlu!

20. mín.  Besta færi leiksins! Donna Key Henry, sem gekk til liðs við Stjörnuna frá Selfossi fyrir tímabilið, lék boltanum inn á völlinn frá hægri kanti og lét vaða með vinstri fætinum. Boltinn fór hárfínt framhjá fjærstönginni en skotið var frábært.

13. mín. Harpa fær skotfæri rétt fyrir utan teig og lætur auðvitað vaða á markið. Boltinn fer naumlega framhjá en mér sýndist Sonný Lára vera algjörlega með þetta á hreinu í markinu, ef knötturinn hefði hitt markið.

9. mín.  Hallbera með skot vinstra megin í teignum en boltinn svífur nokkuð vel framhjá markinu. Blikar hafa verið sterkari en við bíðum enn eftir afgerandi marktækifæri.

7.Mín. Hornspyrna Stjörnunnar er ekki langt frá því að rata á kollinn á Katrínu Ásbjörnsdóttur en herslumuninn vantar. Aðstæður hér í Garðabænum eru erfiðar. mikið rok og aðeins um 4 stiga hiti.

1. mín. Ágætt færi Breiðabliks eftir um 40 sekúnda leik. Fanndís sendi háa sendingu inn á teiginn eftir aukaspyrnu og eftir nokkuð klafs endaði boltinn í höndum Berglindar markvarðar.

1. mín. Leikurinn er hafinn

Það mun mikið mæða á hinni tvítugu Berglindi Hrund Jónasdóttur í marki Stjörnunnar. Berglind mun reyna að fylla skarð landsliðskonunnar Söndru Sigurðardóttur, sem skipti yfir til Vals og varð það mikið skarð fyrir skildi.

Þessi tvö lið eru talin líkleg til afreka í sumar. Flestir „spekingar“ spá reyndar þriggja liða einvígi um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Breiðablik, Valur og Stjarnan munu bítast um bikarinn.

Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta heldur þunnskipaðir til leiks í kvöld en aðeins fimm varamenn eru á skýrslu hjá Blikum. Stjarnan er með hefðbundin fjölda varamanna eða sjö talsins.

Byrjunarlið Stjörnunnar: Berglind Hrund Jónasdóttir(m), Ana Victoria Cate, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir(f), Donna Key Henry, Kristrún Kristjánsdóttir, Lára Kristín Pedersen, Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir, Agla María Albertsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir Katrín Ásbjörnsdóttir.

Byrjunarlið Breiðabliks: Sonný Lára Þráinsdóttir(m), Svava Rós Guðmundsdóttir, Hildur Sif Hauksdóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Rakel Hönnudóttir(f), Fanndís Friðriksdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Guðrún Arnardóttir, Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir

Meistarakeppnin er árlegur leikur milli Íslands- og bikarmeistara síðasta árs. Breiðablik varð Íslandsmeistari 2015 en Stjarnan bikarmeistari. 

Keppnin hefur farið fram frá árinu 1992. Breiðablik og Valur hafa oftast sigrað, 7 sinnum hvort félag. KR hefur þrisvar unnið, Stjarnan tvisvar, ÍA og Þór/KA einu sinni hvort félag. Stjarnan vann keppnina í fyrra og lagði þá Breiðablik 4:1 á sama velli.

Hallbera Guðný Gísladóttir, Donna Key Henry og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir …
Hallbera Guðný Gísladóttir, Donna Key Henry og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert