Tímabilið byrjað fyrir alvöru

Jóhann Laxdal og Garðar Gunnlaugsson
Jóhann Laxdal og Garðar Gunnlaugsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég er bara mjög ánægður. Kominn með fimm [mörk] núna í tveimur leikjum og tímabilið byrjað fyrir alvöru hjá okkur. Vonandi náum við að halda þessu áfram,“ sagði Garðar Gunnlaugsson, framherji ÍA sem skoraði þrennu í 4:2 sigri liðins gegn Stjörnunni í níundu umferð Pepsi-deildar karla.

Garðar var sammála blaðamanni að lið ÍA hafi verið mjög gott í kvöld.

„Þetta var bara hrikalega góður sigur. Liðið vann bara sem ein heild nánast allan tímann nema kannski fyrir utan nokkurra mínútna kafla í fyrri hálfleik. Við ákváðum bara að koma út eftir hálfleik tvíefldir og við gerðum það. Það er klárlega jákvæður straumur í liðinu og við ætlum að taka þetta með okkur í næsta leik.“

Garðar velkist ekkert í vafa hvert meginmarkmið Skagamanna er þetta sumarið.

„Markmiðið er bara að tryggja okkur í efstu deild. Það hefur alltaf verið markmiðið.“

En hvað var það besta við þennan leik að mati markahróksins?

„Það var „team-effortið“, tvímælalaust,“ sagði Garðar að lokum en hann hefur nú skorað átta mörk í Pepsi-deildinni og er markahæstur allra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert