„Við brotnuðum aðeins“

Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Vals, í baráttu við nokkra leikmenn …
Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Vals, í baráttu við nokkra leikmenn Bröndby í kvöld. mbl.is/Þórður

Danski varnarmaðurinn Rasmus Christiansen var svekktur eftir að Valur tapaði 4:1 fyrir Bröndby í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

„Það var eins og við værum ekki alveg mættir til leiks í seinni hálfleik. Þeir skoruðu eftir tveggja mínútna leik og við það brotnuðum við aðeins, því miður,“ sagði Christiansen eftir leikinn í kvöld en staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik.

„Við brotnuðum aðeins og það gaf þeim aukið sjálfstraust. Þeir nýta líka sín tækifæri til að skora. Það er leiðinlegt að við komum ekki af nógu miklum krafti til leiks í seinni hálfleik,“ bætti Christiansen við en Bröndby skoraði þrjú mörk á fyrsta korterinu í seinni hálfleik og gerði nánast út um leikinn.

„Þeir skoruðu úr sínum færum en við hefðum getað skorað fleiri mörk. Það er kannski munurinn á íslensku og dönsku deildinni; þeir voru aðeins betri en við inni í teig, varnarlega og sóknarlega. Heilt yfir fannst mér við leika ágætlega og þegar við erum upp á okkar besta er ekki mikill munur á liðunum,“ sagði danski varnarmaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert