Svekkjandi jafntefli Breiðabliks í Cardiff

Hallbera Guðný Gísladóttir (t.h) og Ingibjörg Sigurðardóttir (nr 25) eru …
Hallbera Guðný Gísladóttir (t.h) og Ingibjörg Sigurðardóttir (nr 25) eru í byrjunarliði Blika í dag mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Breiðabliks gerðu í dag 1:1 jafntefli gegn serbneska liðinu Spartak Subotica í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Leikið  á Cyncoed Stadium í Cardiff.

Úrslitin verða að teljast mikil vonbrigði fyrir Breiðablik en Blikar hreinlega óðu í færum allan leikinn. Alls átti Breiðablik 21 marktilraun í leiknum en Subotica átti aðeins sjö marktilraunir.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði fyrir Breiðablik á 69. mínútu eftir sendingu Svövu Rósar Guðmundsdóttur og leikmenn Breiðabliks fengu mýmörg færi til að gera út um leikinn. Markvörður Subotica átti hins vegar góðan dag auk þess sem Fanndís Friðriksdóttir skaut í stöng.

Það var svo í uppbótartíma að Bandaríkjakonan Alex Quincey jafnaði metin eftir hornspyrnu og liðin skildu því jöfn 1:1. Bæði lið hafa því eitt stig í þessum undanriðli þar sem velska liðið Cardiff og búlgarska liðið NSA Sofia leika einnig. Cardiff vann leik þessara liða í dag, 4:0.

Breiðablik mætir NSA Sofia á fimmtudaginn og lýkur svo riðlakeppninni með leik gegn Cardiff á sunnudaginn. Efsta lið riðilsins fer áfram í 32 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

 HÉR AÐ NEÐAN MÁ SJÁ TEXTALÝSINGU FRÁ LEIKNUM

90 - MAAARK! Alex Quincey jafnar metin í uppbótartíma eftir hornspyrnu. Algjörlega grátlegt fyrir Breiðablik, sem hefur vaðið í færum allan leikinn.

89 - Hallbera Guðný Gísladóttir á skot framhjá.

87 - Jamm, Fanndís á eitt skotið enn og aftur ver Kostic. Ég held að Kostic verði ekki á jólakortalistanum hjá Fanndísi þetta árið.

84 - Fanndís Friðriksdóttir skýtur í stöngina. Þetta er að koma hjá Fanndísi!

82 - Enn og aftur ver Kostic frá Fanndísi. Ég trúi ekki öðru en Fanndís setji eitt mark í dag.

73 - Hildur Antonsdóttir með marktilraun en hittir ekki rammann.

71 - Tseng Shu-O með marktilraun framhjá marki Breiðabliks.

69 - MAAAAAAARK!! Berglind Björg Þorvaldsdóttir skorar eftir sendingu Svövu Rósar GUðmundsdóttur. Það hlaut að koma að þessu!

65 - Rakel Hönnudóttir á skot framhjá.

64 - Berglind Björg Þorvaldsdóttir á skot framhjá.

63 - SKIPTING. Hildur Antonsdóttir kemur inn fyrir Olivu Chance.

62 - Rakel Hönnudóttir á skot sem Kostic ver. Þetta hlýtur að fara að detta inn!

61 - Fanndís Friðriksdóttir í góðu færi en aftur er Kostic að reynast Blikum erfið í markinu!

60 - Svava Rós Guðmundsdóttir á skot framhjá.

56 - Sonný Lára Þráinsdóttir ver frá Alex Quincey.

51 - Berglind Björg Þorvaldsdóttir fær besta færi Blika en markvörðurinn Milica Kostic sér við henni. Kostic er aðeins 18 ára og varði þarna mjög vel frá Berglindi.

50 - Svava Rós Guðmundsdóttir á skot framhjá.

49 - Fanndís Friðriksdóttir á skot en hittir ekki markið.

46 - Seinni hálfleikur er hafinn.

45 - HÁLFLEIKUR

40 - Rakel Hönnudóttir á skot sem hittir ekki mark Subotica.

38 - Kínverjinn Tseng Shu-O á skot sem Sonný Lára Þráinsdóttir ver.

32 - Fanndís Friðriksdóttir á skot framhjá.

30 - Fanndís Friðriksdóttir á skot beint úr aukaspyrnu en það er varið.

25 - Svava Rós Guðmundsdóttir á skot framhjá.

23 - Eitthvað eru Blikar að vakna. Fanndís á aftur skot að marki og í þetta skipti ver markvörður Subotica.

17 - Fanndís Friðriksdóttir á fyrsta skot Blika í leiknum en boltinn siglir fram hjá marki Subotica.

13 - Olivia Chance brýtur af sér og Subotica fær aukaspyrnu í skotfæri. Bandaríkjakonan Alex Quincey skýtur framhjá markinu beint úr aukaspyrnunni.

9 - Liðin skiptast á að brjóta. Greinlega verið að gefa allt í þetta í Cardiff í dag.

5 - Fjolla Shala brýtur á leikmanni Subotica utan teigs en ekkert verður úr aukaspyrnunni.

2 - Jelena Marenic skýtur framhjá.

1 - Leikurinn er hafinn.

Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta serbneska liðinu Spartak Subotica í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Leikið er á Cyncoed Stadiium í Cardiff og fylgst verður með leiknum í textalýsingu á mbl.is

Byrjunarlið Breiðabliks í dag:

Sonný Lára Þráinsdóttir (m)
Svava Rós Guðmundsdóttir
Arna Dís Arnþórsdóttir
Málfríður Erna Sigurðardóttir
Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Fjolla Shala
Hallbera Guðný Gísladóttir
Olivia Chance
Rakel Hönnudóttir
Fanndís Friðriksdóttir
Ingibjörg Sigurðardóttir

Leikurinn er sá fyrsti hjá Breiðabliki í riðlakeppni en auk serbenska liðsins eru NSA Sofia frá Búlgaríu og velska liðið Cardiff Met í riðlinum, sem leikinn er í Wales.

Efsta liðið í riðlinum kemst í 32 liða úrslit Meistaradeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert